Dauðaslysum fjölgar í Svíþjóð

http://www.fib.is/myndir/Nollvision.jpg

Sænska núllsýnin er um það að fækka árlegum dauðaslysum í umferðinni á tilteknu árabili niður í núll. Samkvæmt áætluninni ættu umferðardauðaslys á þessu ári að verða alls 270. Frá því að áætlunin um núllsýnina var fyrst sett fram 1997 hefur dauðaslysunum fækkað jafnt og þétt – þar til nú. Strax í lok júlímánaðar varð 270. dauðaslysið og ef að líkum lætur munu þau verða fleiri síðustu fimm mánuði ársins þegar hausta tekur, skólar byrja og skammdegi og vetur ganga í garð.

Sl. ár hætti slysum að fækka og nú þykir orðið ljóst að hin jákvæða þróun hefur snúist á verri veg. Sl. vetur var hraðamyndavélum fjölgað mjög við vegi í Svíþjóð og bundu menn vonir við að þær myndu stemma stigu við vaxandi fjölda slysa. Sú hefur ekki orðið raunin og dauðaslysum fer fjölgandi. Svíar óttast því að núllsýnin hafi siglt í strand, markmiðið um ekkert dauðaslys í umferðinni sé óraunhæft og núllsýnin því einungis innantómt slagorð.
Claes Tingvall umferðaröryggisstjóri sænsku vegagerðarinnar segir við sænska tímaritið Auto Motor & Sport að núllsýnin sé hreint ekki óraunhæf heldur þvert á móti hefði hún gengið upp hefðu menn tekið á öllum þeim atriðum sem vitað er að séu slysavaldandi eða –hvetjandi. Hann bendir á að í dag séu miklu fleiri mótorhjól og vélhjól í umferðinni heldur en fyrir 10-15 árum og aukningu dauðaslysanna sé fyrst og fremst að rekja til þeirra hóps.

Auto Motor & Sport segir að sænska vegagerðin hafi haft oftrú á hraðamyndavélum og að þær myndu fækka slysunum. Það hafi ekki orðið raunin nema ef til vill að litlu leyti.  Þegar slysaskýrslur og –tölur séu skoðaðar sýni það sig enn og aftur að fæst slysin verði rakin beint til ólöglegs hraða. Meginástæða flestra dauðaslysa sé enn og aftur mistök ökumanna og stundum jafnvel hrein og bein óheppni sem ökumaður gat engin áhrif haft á og hraðamyndavélar hefðu á engan hátt geta forðað, eins og t.d. þau tvö dauðaslys sem urðu í ár þegar tré féllu ofan á bíla. http://www.fib.is/myndir/Klessuverk.jpg

Tímaritið segir að lokum að mörg þeirra dauðaslysa sem orðið hafa á árinu hefðu ekki orðið ef tekist hefði áður að losna við drukkna og vímaða ökumenn úr umferðinni, aðgreina akstursstefnur til að hindra framanáárekstra og loks að koma ökumönnum mótorhjólanna í skilning um hversu brothættir þeir eru. Hefði verið búið að þessu hefði áfangi núllsýnarinnar fyrir árið 2007 náðst og gott betur.