Dauðaslysum í umferð stórfækkar í Evrópu

Evrópuráðið gaf nýlega út tölur um umferðarslys í ríkjum Evrópusambandsins og ýmsan fróðleik þeim tengdan.  Í þeim kemur fram að dauðaslysum á evrópskum vegum fækkaði um 11 prósent milli áranna 2009 og 2010. Mest hlutfallsleg fækkun varð í Luxembourg (33%), Möltu (29%) Svíþjóð (26%) og Slóvakíu (26%).  Þetta og fleira má lesa úr töflunni hér að neðan.

Siim Kallas, varaforseti Evrópuráðsins og yfirmaður samgöngumála segir það vissulega uppörvandi hve nærri öllum ríkjum ES hefur tekist að draga úr  dauðaslysunum. En hvergi megi þó slaka á klónni. Ennþá deyi um 100 manns á hverjum einasta degi og það sé óviðunandi. „Það hefur náðst góður árangur frá 2001 og okkur hefur tekist að bjarga 100 þúsund mannslífum. En fjöldi dauðaslysa og fjöldi alvarlega slasaðra  er samt enn það mikill á óásættanlegt er.  Við verðum að fækka þessum slysum um a.m.k. helming fyrir árið 2020. Til að það megi takast verðum við m.a. að skoða  á hvers konar bílum fólk ekur, hvert það ekur og hvernig,“ segir Kallas.

Evrópuráðið samþykkti í júlí í fyrra að gerast aðili að aðgerðaáætlun Sameinuðu þjóðanna gegn umferðarslysum í heiminum en það var  FIA; Alþjóðasamtök bifreiðaeigendafélaga og –íþrótta sem átti frumkvæði að þessu heimsátaki. Það hófst formlega sl. í vor og mun standa til ársins 2020. Átakið nefnist áratugur aðgerða gegn umferðarslysum.  Evrópusambandið hefur heitið því að fækka dauðaslysum um a.m.k. helming  þann tíma sem átakið stendur. Sú starfsáætlun sem unnið er eftir nefnist  „European Road Safety Policy Orientations 2011-2020." Samkvæmt henni eiga ríki Evrópusambandsins að herða kröfur um öryggi bíla,  bæta og efla kennslu og þjálfun allra vegfarenda, bæta vegi og samgöngumannvirki og sjá til þess að umferðarreglum sé framfylgt.

Í starfsáætlun Evrópuráðsins eru það einkum sjö atriði sem taka á til sérstakrar skoðunar þar sem framkvæmd þeirra skiptir miklu um hvort markmiðið um helmingsfækkun dauðaslysa geti náðst. Þessi atriði eru eftirfarandi:

  • Bættur öryggisbúnaður fyrir fólksbíla og hverskonar flutningabíla
  • Bættir og betri og öruggari vegir
  • Þróun skynvædds öryggisbúnaðar fyrir bíla
  • Hertar kröfur og efld kennsla og þjálfun ökunema
  • Bætt löggæsla í umferðinni
  • Efldar slysarannsóknir
  • Sérstök áhersla á mótorhjólafólk og aukið öryggi þess

Sjá nánar  MEMO/10/343.

Einnig MEMO/11/483

http://www.fib.is/myndir/Evr-slys.jpg