Defender til hreindýraveiða?

Eins og alltaf þegar gamlar gerðir bíla sem framleiddar hafa verið lengi eru að nálgast endalokin, eru alls kyns sérgerðir og sérútgáfur kynntar til að örva söluna svona í lokin. Gamli LandRover Defender er með þeim bílum sem lengst hafa verið framleiddir undir sama nafni og án stökkbreytinga, eða í 64 ár. Hann verður framleiddur áfram til 2017 en þá lýkur 69 ára merkilegri sögu og nýr bill tekur við.

http://www.fib.is/myndir/Byssukassi.jpg
http://www.fib.is/myndir/LandRov-Blas-aftan.jpg

Nú hefur sérútgáfa af lengri gerð Defendersins verið kynnt. Hún nefnist Blaser Edition og er gerð á vegum LandRover í Þýskalandi í samvinnu við vopnaframleiðandann Blaser. Bleiserinn hefur verið byggður í 60 eintökum til að byrja með að minnsta kosti. Honum er ætlað að höfða til ævintýrafólks sem vill aka um torfærur og komast í mannraunir. Bíllinn er því upphækkaður, á torfæruhjólbörðum, málaður í hernaðargrænum lit sem kallast Keswick Green.

Á toppnum er öflug farangursgrind og meðal annarra fylgihluta má nefna  mikla vopnakistu til að geyma í veiðiriffla og haglabyssur og skotfæri. Þá er einnig köfunarbúnaður meðal fylgihluta. Á bílnum er einnig spil með fjögurra tonna dráttargetu og ljóskastarar eru á bæði aftan- og framanverðri toppgrindinni. Vélin er 2,2 l dísilvél, 122 ha. og 360 Nm.

Þessi sérbúni ævintýrabíll verður kynntur sérstaklega á veiðimennsku- og útivistarsýningu í Dortmund í Þýskalandi í næsta mánuði.