Deilan um Gálgahraunsveg

Nýi Álftanesvegurinn um Gálgahraun er talsvert hitamál þessa dagana.  Náttúruverndarfólk og -samtök mótmæla lagningu hans harðlega en þeir sem leggja vilja veginn hafa m.a. uppi sjónarmið meints bætts umferðaröryggis og segja núverandi veg háskalegan. Blaðamaður á Fréttablaðinu óskaði eftir tölulegum staðfestingum frá Vegagerðinni á því hversu hættulegur vegurinn er en fékk óskiljanleg svör sem sögðu ekkert um hversu háskalegur vegurinn er í samanburði við aðra vegkafla með svipaðan umferðarþunga.

Ólafur Kr. Guðmundsson tæknistjóri Euro RAP á Íslandi rannsakaði töluleg gögn Vegagerðarinnar af þessu tilefni og greindi frá niðurstöðum sínum í viðtali við Fréttablaðið. Niðurstöður hans eru í stuttu máli þær að Álftanesvegurinn er ekki sérlega hættulegur: Á árunum 2001 til 2011 er hann í 22 sæti af 44 að meðaltali yfir slysatíðni vega Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu.  Yfir landið í heildina er hann í 302 sæti af 1427 veghlutum Vegagerðarinnar að meðaltali.  Þetta má lesa út úr meðfylgjandi töflu.

FÍB tekur ekki afstöðu til vegalagningarinnar um Gálgahraun sem slíkrar en hlýtur, sem umsagnaraðili og málsvari umferðaröryggis að minna vegamálayfirvöld á þá skyldu þeirra að notast við fagleg rök og beita faglegum vinnubrögðum þegar taka skal ákvarðanir um nýja vegi og endurbætur eldri vega.

http://www.fib.is/myndir/Alftanesvegur-slys.jpg