Deilur í ES um CO2-tilskipun

The image “http://www.fib.is/myndir/European-Union.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Miklar deilur standa í Evrópusambandinu um tilskipunarfrumvarp um að draga úr útblæstri CO2 frá bílum. Frumvarpið var lagt fram í Evrópuþinginu sl. miðvikudag. Í því segir að útblástur frá nýjum bílum megi ekki verða meiri en 120 grömm á kílómetra frá árinu 2012. Bílaiðnaðurinn í Evrópu, ekki síst sá þýski mótmælir þessu harðlega og segir þetta nánast óframkvæmanlegt. Sama hefur Angela Merkel Þýskalandskanslari gert og hyggst leggja fram tillögu um að mörkin verði sveigjanleg eftir stærð bíla. Meðalútblástur CO2 frá bílum í Evrópu er í dag í kring um 163 g/km.

Samkvæmt frumvarpinu á að ná markmiðinu um 120 grömmin af CO2 á kílómetra með betri og nákvæmari gangstýringu bílvéla en það eitt og sér á að ná útblæstri CO2 niður í 130 g/km. Til að ná þeim tíu grömmum sem á vantar á í fyrsta lagi að setja í bíla loftkælikerfi sem þarnast minni orku en núverandi kerfi, í öðru lagi að setja í þá búnað sem fylgist með loftþrýstingi í hjólbörðum en of lítið loft þýðir aukna núningsmótstöðu og þar með þarf meiri orku til að hreyfa bílinn áfram. Ennfremur á að nota lífrænt eldsneyti í meira mæli.

Samband evrópskra bílaframleiðenda; Acea hefur sagt frumvarpið vera vanhugsað og það muni hafa eyðileggjandi áhrif á efnahag Evrópskra ríkja nái það fram að ganga. Bernd Gottschalk talsmaður samtaka þýskra bílaframleiðenda, VDA, segir að þetta muni kalla á gríðarlegar fjárfestingar í bílaiðnaðinum í tæknibúnaði og hugviti og sé í raun varla framkvæmanlegt.