Dekkjasokkarnir slá í gegn

http://www.fib.is/myndir/AutoSock.gif


Svo virðist sem dekkjasokkarnir séu að slá í gegn. Í gær seldust nokkrar stærðir af dekkjasokkum upp hjá FÍB en algengar fólksbílastærðir eru þó ennþá til. Ný sending er væntanleg í hús í dag.

Allmargir þeirra sem fengu sér dekkjasokka í gær höfðu samband í morgun og lýstu mjög góðri reynslu af dekkjasokkunum í bæði snjó og á ís. En af gefnu tilefni skal það tekið fram að eins og stendur á umbúðunum með áberandi hætti er hámarkshraði á dekkjasokkunum 50 km á klst. Akið alls ekki hraðar en það með sokkaklædd drifhjólin.

Sokkarnir eru hjálpartæki sem setja skal á dekkin þegar færið er slæm eða tvísýn. Mjög auðvelt er að setja þá á dekkin og enn auðveldara að fjarlægja þá aftur þegar þeirra er ekki lengur þörf. Takið þá því af þegar ekki er lengur þörf fyrir þá.

Akið alls ekki á sokkunum á auðum vegi um lengri vegalengd á fullum umferðarhraða sem oftar en ekki er 80-90. Á þeim hraða geta sokkarnir kastast af hjólunum eða flækst í hjólabúnaðinum. Á sama hátt og venjulegar snjókeðjur eru sokkarnir ekki gerðir fyrir meiri hraða en 50. Munurinn er bara sá að engin óhljóð eða skarkali heyrist frá sokkunum eins og keðjum og því auðveldara að gleyma sér. En það er ergilegt að týna nýjum sokk eða skemma hann vegna gleymsku, kæruleysis eða af því að hafa ekki nennt að taka hann af þegar hans þurfti ekki með lengur.