Delphi þróar sjálfkeyrandi leigubíla í Singapore

Delphi Automotive er bandarískur bílaíhlutaframleiðandi sem eitt sinn var í eigu GM og hét þá lengst af Delco. Delphi hefur ásamt fleiri stofnað sérstakt þróunarfélag til að prófa og þróa sjálfsakstursbúnað fyrir sex ökumannslausa Uber-leigubíla í þéttri borgarumferðinni í Singapore.

Verkefnið hefst eftir áramótin og að sögn yfirverkfræðings Delphi við Automotive News; Glen De Vos, verða í fyrstunni  „vara-ökumenn“ í bílunum til að grípa inn í ef sjálfvirknin bregst. En ef allt gengur eins og vonir standa til þá verða mannlegu ökumennirnir fjarlægðir úr tilraunabílunum fljótlega þannig að megnið af tilraunatímanum, sem er tvö og hálft ár, verða þessir leigubílar ökumannslausir.

Með þessari tilraun vonast Delpi til að bæta sjálfskeyrslutæknina og að traust almennings á henni styrkist og að tæknibúnaður sem grípur inn í akstur venjulegra bíla þegar slys er í uppsiglingu, batni í bílum sem ekið er af lifandi fólki.