Dieselgate – árs afmæli

I dag er nákvæmlega eitt ár síðan dísilhneyksli Volkswagen – oft kallað Dieselgate – komst í hámæli vestur í Bandaríkjunum. Margir áttu erfitt með að trúa því að öflugt bílaframleiðslufyrirtæki hefði markvisst falsað gerðarviðurkenningartölur með því að koma fyrir sérstökum búnaði í bílum í því skyni. En það var einmitt það sem gert var. Hversvegna?

Þáverandi forstjóri; Martin Winterkorn reyndi í fyrstunni að gera sem minnst úr málinu þegar fjölmiðlar hófu að fjalla um það en eftir því sem upplýsingar um málið hlóðust upp varð það sífellt erfiðara að halda því fram að æðstu stjórnendur hefðu engan hlut átt að máli, heldur væri þetta fyrst og fremst einhverskonar tæknileg óregla eða minniháttar ,,hugbúnaðarfrávik.” En þetta var annað og meira og svo fór að Winterkorn neyddist til að taka pokann sinn þann 23. september í fyrra, því að á hans vakt höfðu bæði neytendur og stjórnvöld verið snuðuð og svikin og að þeim logið blygðunarlaust og allt snerist þetta í fyrstunni um einungis hálfa milljón bíla í Bandaríkjunum eingöngu.

Annað og verra átti eftir að koma í ljós. Alls ellefu milljónir bíla um allan heim höfðu verið markvisst útbúnir með búnaði sem hreinlega gerði öflugan mengunarvarnarbúnað dísilbíla óvirkan, nema þegar bílarnir voru teknir í sérstaka mengunarmælingu í skoðunarstöð. Þá varð búnaðurinn virkur.

Nýr forstjóri sem við tók af Winterkorn fékk það verkefni að glíma við afleiðingar þessa svindls, semja við stjórnvöld þeirra ríkja sem VW hafði með þessu svikist aftanað og lagfæra skaddað orðspor gagnvart neytendum. Ekki verður annað sagt en honum hafi tekist vel upp við hið síðarnefnda því að sala nýrra bíla virðist lítið hafa skaðast og það er líkt og neytendur hafi að mestu gleymt og fyrirgefið og snúið athyglinni að þeirri rafvæðingu framtíðarbíla VW samsteypunnar sem nýr forstjóri nú boðar

En hneykslið hefur sannarlega kostað VW samsteypuna mikið og margt hefur gerst á þessu ári sem liðið er frá því það varð opinbert og margt getur enn gerst. Hæst ber e.t.v. samkomulag við bandarísk stjórnvöld um 10 milljarða dollara endurkaup og skaðabætur og um breytingar á bílum með svindlbúnaði. Jafnframt eru málaferli hafin víða um lönd þar sem fjárfestar, hluthafar neytendasamtök og fl. krefjast skaðabóta. Þá sæta VW, ýmsir stjórnendur samsteypunnar fyrr og síðar og jafnvel undirframleiðendur sakarannsókn þar sem niðurstaða liggur ekki enn fyrir. Öll kurl eru þannig alls ekki komin til grafar enn. Síður en svo.

Af hálfu VW hefur verið sagt að auðveld sé að breyta bílunum og gera þá löglega þannig að gerðarviðurkenningargildi um mengun, eyðslu og afl standist. Ef svo er vaknar óhjákvæmilega sú spurning, hvers vegna breytingarnar ganga svona hægt og líka hversvegna var áhættan þá tekin? Hversvegna var farið út í þetta gríðarlega svindl allt saman, ef lagfæringin er ekki meira mál en VW hefur haldið fram?