Dísil-tvíorkubíll frá PSA

Það er greinilegt að bílaframleiðandinn PSA í Frakklandi (Peugeot/Citroen) ætlar að brjóta í blað og hefja fjöldaframleiðslu á tvíorkubíl eða tvinnbíl sem í notkun mun svipa dálítið til tvinnbílsins Toyota Prius. Meginmunurinn er þó sá að PSA bíllinn verður með dísilvél, ekki bensínvél eins og Príusinn.

Bíllinn sem hér um ræðir er Peugeot 3008 HYbrid4. Hann verður með tveggja lítra dísilvél, 120 kílówatta og 500 Newtonmetra að afli og vinnslu (163 hö)  sem drífur framhjólin og 27 kW (37 ha.) rafmótor sem drífur afturhjólin. Þetta telur Peugeot leiða til hins ákjósanlegasta samspils brunahreyfils og rafmótors og leiða til bestu hugsanlegu nýtingar dísilolíunnar auk þess að bíllinn verður fjórhjóladrifinn.

Samtals verður því þessi bíll með 200 hestöfl og mun því tæpast skorta afl. Hann verður með fjórhjóladrifi eins og áður segir og í hægri borgarumferð mun hann fyrst og fremst aka á rafmagninu. Eyðslan í blönduðum akstri er þannig sögð verða 3,8 lítrar á hundraðið og CO2 útblásturinn 99 grömm á kílómetrann. Ökumaður getur svo valið milli ferns konar  aksturshams, þ.e. í fyrsta lagi ZEV sem er eingöngu akstur á rafmagni, fjórhjóladrifs, sportaksturslags eða í fjörða lagi sjálfvirkrar skiptingar milli hinna forrituðu akstursmáta.

Gírkassinn í Peugeot 3008 HYbrid4 er hefðbundinn sex gíra gírkassi með sjálfvirkri gírskiptingu, svipað og DSG gírkassarnir hjá Volkswagen.  Þesskonar gírkassar bjóða upp á það að ökumaður getur sjálfur handskipt um gíra eða látið sjálfvirknina um það. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvert drægi bílsins verður á annarsvegar rafmagninu einu eða þá ádísilolíu og rafmagni í sameiningu. Gera má ráð fyrir því að blaðamönnum gefist kostur á að reynsluaka bílnum fljótlega, annaðhvort áður en Parísarsýningin verður opnuð í næsta mánuði, eða eftir að henni lýkur. Þá munu upplýsingarnar um drægi og rauneyðslu hins nýja og athyglisverða bíls væntanlega koma fram.