Dísilbílum fjölgar

http://www.fib.is/myndir/TDI.jpg


-Eitt af markmiðum lagasetningar um olíu- og kílómetragjald var að auka hlut bifreiða með dísilvélar í bifreiðaflotanum af umhverfisástæðum. Lögin tóku gildi um mitt ár 2005 og síðan þá hefur hlutfall bifreiða með dísilvélar aukist eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Með lögunum var fyrirkomulag skattlagningar á dísilolíu einfaldað en jafnframt er olíugjaldið áfram lægra en samsvarandi skattlagning á bensín.- Þetta kemur fram í Vefriti fjármálaráðuneytisins þann 18. janúar sl. Þar segir ennfremur:

„Samkvæmt upplýsingum á vef Umferðarstofu voru rétt tæplega 20.000 fólksbifreiðar fluttar til landsins árið 2006. Þar af voru 4.600 knúnar með dísilvélum en það er rétt tæpur fjórðungur innfluttra fólksbifreiða það ár. Sama ár voru afskráðar 9.300 fólksbifreiðar sem þýðir að fyrir hverjar tvær sem fluttir voru inn til landsins fór ein af skrá.
http://www.fib.is/myndir/FleiriDisilb.jpg
Yfirgnæfandi fjöldi afskráðra fólksbifreiða eru með bensínvél og því eykst hlutfall bifreiða með dísilvél í bifreiðaflotanum. Þegar fyrirkomulagi skattlagningar á olíu var breytt var búist við að hlutdeild bifreiða með dísilvélar í innflutningi lítilla fólksbifreiða yrði komin í 45% árið 2010. Í fyrra má rekja 45% aukningar bifreiðaflotans til bifreiða með dísilvél. Ef þessi þróun heldur áfram, eins og búist er við, mun markmið lagasetningarinnar nást.

Aukin hlutdeild bifreiða með dísilvélar leiðir til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda á hvern ekinn kílómetra. Þótt fjölgun bifreiða auki heildarlosun bifreiðaflotans í landinu er áætlað að breytt samsetning hans hafi minnkað meðaleyðslu (og þar með losun) um 0,6% árið 2006, einu ári eftir að fyrirkomulagi á skattlagningu dísilolíu var breytt.