Dísilolía fór fyrir mistök á bensíntanka N1 á Vopnafirði

Starfsmaður Olíudreifingar dældi í misgripum dísilolíu á bensíngeyma á afgreiðslustöð N1 á Vopnafirði miðvikudaginn 22. nóvember sl. Að sögn Sigurðar Bjarnasonar, sölustjóra hjá N1, var búið að dæla um 800 lítrum af olíu á tankinn sem tekur um 20 þúsund lítra þegar þegar mistökin uppgötvuðust.

Til skrifstofu FÍB hafa leitað nokkrir áhyggjufullir Vopnfirðingar út af dísilolíublönduðu bensíni sem selt var þar í bæ. FÍB hafði samband við N1 og þar veitti Sigurður Bjarnason nánari upplýsingar um málið. Sigurður sagði að N1 hefði farið að berast kvartanir frá eigendum bíla um gangtruflanir um og eftir síðustu helgi. Þá strax hefði fyrirtækið ráðist í að vatnsmæla bensínið á dælustöð N1 á Vopnafirði og reyndist vatnsmagnið eðlilegt. Í kjölfarið settu starfsmenn N1 sig í samband við Olíudreifingu sem sér um dreifingu og birgðahald á fljótandi eldsneyti fyrir eigendur sína N1 og Olíuverslun Íslands (Olís). Þá fyrst heyrðu starfsmenn N1 um þessa röngu dælingu í vikunni á undan.

Fyrstu viðbrögð N1 í málinu var að setja sig í samband við bílaverkstæðið Bílar og vélar á Vopnafirði og óska eftir þjónustu þeirra við afdælingu og síuskipti á bílum þeirra sem hefðu orðið varir við gagngtruflanir. Bíleigendum var boðið að koma með bíla sína í þjónustu hjá Bílum og vélum. Bílaverkstæðið er lítill og fámennur vinnustaður þannig að einhverja daga getur tekið að afgreiða allar þjónustubeiðnir.

Ólafur K. Ármannsson, verkstjóri hjá Bílar og Vélum, sagði í samtali við FÍB, að þeir væru búnir að taka á móti 24 bílum. Vonandi verða þeir ekki fleiri. Ekki er um alvarlegar bilanir að ræða, mest sem kemur fram í hægagangi bílanna, en tekist hefði að laga það. Við höfum þurft að skipta út smurolíu á tveimur bílum. Dísillinn á í öllu falli ekki að skemma. Það er nóg að gera en við sjáum framúr þssu að lokum.

N1 ber fulla ábyrgð á mögulegu tjóni

Fulltrúar N1 taka skýrt fram að þeir beri fulla ábyrgð á mögulegu tjóni sem eigendur bílanna kunna að hafa orðið fyrir og biðjast afsökunar á þeim óþægindum sem þessi mistök hafa skapað á Vopnafirði. Samkvæmt upplýsingum frá N1 er áætlað að allt að 60 bílar hafi tekið þetta blandaða bensín af dælu áður en N1 áttaði sig á mistökunum.

Sigurður Bjarnason hjá N1 sagði að ef upp kæmu tilvik þar sem eigandi bifreiðar, sem ekki væri búið að dæla af eða eiga við hjá Bílum og vélum, þyrfti að fara í langferð þá gæti N1 haft milligöngu um að útvega bílaleigubíl. 

Skortur á fagmennsku hjá Olíudreifingu

Vonandi verða ekki frekari eftirmálar út af þessum mistökum sem hafa valdið mörgum Vopnfirðingum og nærsveitamönnum áhyggjum. Ábyrgðin á mögulegum skemmdum liggur hjá N1 söluaðila eldsneytisins. Þar á bæ var strax gripið til viðeigandi aðgerða eftir að fyrirtækinu varð það ljóst hvað gerst hefði. Það ámæliverða í þessu máli er að fulltrúar Olídreifingar tilkynntu ekki strax um mistökin. Við misdælinguna átti að grípa til viðeigandi aðgerða til þess að tryggja  skaðleysi viðskiptavina. Þess er vænst að þetta mál verði til þess að dreifingaraðilar eldsneytis skerpi öryggis- og vinnureglur sínar og miðli strax réttum upplýsingum til viðeigandi aðila vegna sambærilegra atvika.

Hugsanlega hafa einhverjir bíleigendur á ferðalagi upplifað gangtruflanir komnir langan veg frá dælustöð N1 á Vopnafirði. Þeim aðilum er bent á að hafa samband við N1.

(Fréttin hefur verið uppfærð)