Dongfeng Motor bjargar Saab

Fulltrúar National Electric Vehicle Sweden AB (Nevs) og kínverski bílaframleiðandinn Dongfeng Motor Corporation (Dongfeng) undirrituðu í gær samstarfssamning til langs tíma um bæði tækni- og tækniþróunarsamvinnu og markaðssamstarf. Nevs er kínversk-sænskt félag sem keypti þrotabú Saab bílaverksmiðjunnar í Trollhättan á sínum tíma og ætlaði sér stóra hluti í því að framleiða Saab 9-3 sem rafbíl. Þær fyrirætlanir mistókust og fyrirtækið fór í greiðslustöðvun.Tæknisamvinna Nevs og Dongfeng er þegar hafin og undanfarnar vikur hafa verkfræðingar beggja unnið að hönnun nýs bíls.

Dongfeng er einn stærsti bílaframleiðandi heims. Dongfeng framleiðir bíla í Kína, bæði undir eigin nafni en einnig fyrir Peugeot, Citroën, Renault, Nissan, Infinity, Honda og Kia. Ársframleiðslan 2014 var rúmlega 3,83 milljónir bíla og á fyrra helmingi þessa árs hefur Dongfeng skilað af sér 1,83 milljón bílum. Fastráðnir starfsmenn Dongfeng eru 176 þúsund talsins.