Dongfeng skoðar Peugeot

Hið kínverska bílaframleiðslufyrirtæki Dongfeng Motor Group, hið næst stærsta í Kína og ríkisfyrirtæki að auki, íhugar að festa fé í frönsku samsteypunni PSA (Peugeot/Citroen). Talsmaður Kínverjanna segir við Reuters fréttastofuna að búast megi við að samningaviðræður um málið við Frakkana muni taka langan tíma.

PSA hefur um langt skeið verið rekið með tapi, sérstaklega Peugeot hlutinn. Til að mæta því er nú verið að undirbúa hlutafjárútboð í Peugeot og er ætlunin að auka hlutaféð um þrjá milljarða evra. Þessir þrír milljarðar munu verða allt að 30 prósent alls hlutafjárins í PSA. Gert er ráð fyrir því að Dongfeng eignist helming upphæðarinnar eða 1,5 milljarða og franska ríkið hinn helminginn.

Hjá Peugeot vonast menn til að útkljá málið fyrir áramótin. Hinsvegar virðist sem Kínverjarnir ætli ekki að flýta sér neitt sérstaklega. Á iðnþingi í Shanghai um síðustu helgi sagði forstjórinn, Zhu Fushou að þeir væru ekkert að flýta sér að reiða fram féð. Ef væntanleg samvinna og samlegðaráhrif sýndu sig að verða báðum aðilum hagstæð, þá gæti hugsast að þeir skelltu sér í þetta. Ef ekki, þá myndu Dongfeng einfaldlega hætta við allt saman. Það væri áhyggjuefni hversu taprekstur PSA í heild væri mikill. Tapið hefði á síðasta ári numið fimm milljörðum evra.