Drapst á Rússajeppanum

Þriggja daga löng ferðin með ösku Fidels Castro frá Havana til greftrunarstaðar í Santiago de Cuba gekk ekki alveg hnökralaust. Kassinn með öskunni var fluttur þessa 800 kílómetra leið yfir endilanga eyjuna á jeppakerru sem dregin var af Rússajeppa af gerðinni UAZ 3151.

Rússajepparnir eru víst ekki meðal áreiðanlegustu bíla og svo illa fór að það drapst á bílnum ekki langt frá greftrunarstað og engin leið var að koma honum í gang á ný og ekki var heldur staður né stund til að senda mann undir húddið á jeppanum og byrja að leita að biluninni. Hermenn voru því snarlega kallaðir saman til að ýta bílnum síðasta spottann að grafreitnum undir vökulum augum þúsundanna sem fylgdust með hinstu för byltingarleiðtogans. The Telegraph greinir frá þessu. Hermenn ýta jeppanum.