Draumabíll foreldranna?

Hægt verður eftir áramótin að fá nýjustu gerð Ford Fiesta heimilisbílsins með svonefndum MyKey búnaði. Hann gerir t.d. foreldrum það mögulegt að forrita bílinn sérstaklega áður en þeir lána unglingnum á heimilinu bílinn út á rúntinn. Hægt er með forrituninni að takmarka hraða bílsins og einnig hversu hátt má stilla hljómtækin í honum.

MyKey búnaðurinn telst af framleiðandans hálfu vera aukabúnaður en t.d. norski innflytjandinn telur hann svo mikilvægan að allir nýir Ford Fiesta bílar sem seldir verða í landinu framvegis verða með MyKey, LED ljósum sjálfvirkri hemlun ef hindrun er framundan (Active City Stop og Ford SYNC) auk hefðbundins öryggisbúnaðar eins og ESC skrikvörn o.s.frv. Þess má og geta að þessi nýja gerð Ford Fiesta er nýkomin úr árekstraprófun Euro NCAP með fullt hús eða fimm stjörnur. Sjá frétt.

Ford Fiesta er með þriggja strokka bensínvél. Hún fæst í nokkrum útfærslum. Sú aflminnsta er 65 hö og fyrirfinnst í „fátæklegustu“ útfærslu bílsins, sem nefnist Trend. Öflugasta útgáfa vélarinnar er hins vegar 100 hö. og verður í best búnu gerðinni sem nefnist Titanium.