Dregur úr aukningu umferðar á höfuðborgarsvæðinu

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í nýliðnum ágúst mánuði jókst um 2,4 prósent miðað við sama mánuð fyrir ári síðan. Þetta er nokkuð undir meðaltalinu í ágústmánuði frá því þessar mælingar hófust árið 2005. Frá áramótum hefur umferðin aukist um 2,9 prósent sem er miklu minni aukning er í fyrra. Þetta kemur fram í tölum frá Vegagerðinni.

Umferðin, yfir þrjú lykil mælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, jókst um 2,4% í nýliðnum mánuði miðað við sama mánuð á síðasta ári. Þessi aukning er vel undir meðalvexti í ágúst mánuði frá árinu 2005 en hún hefur að jafnaði verið um 2,9%.

Mest jókst umferðin í sniði á Ártúnsbrekku eða um 4,1% en minnst jókst umferðin á Reykjanesbraut við Dalveg eða um 1,1%.

Umferðin jókst alla daga vikunnar en hlutfallslega mest á laugardögum eða um 3,1%. Mest var ekið á miðvikudögum en minnst á sunnudögum.

Það sem af er ári hefur umferðin nú aukist um 2,9%, miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Þetta er þrefalt minni vöxtur en á sama tíma á síðasta ári.

Áfram er gert ráð fyrir að umferðaraukningin nú í ár verði öðru hvoru megin við 3%. Árlegur meðaltalsvöxtur á milli áranna 2005 og 2017 er um 2,8% þ.a.l. er gert ráð fyrir að vöxturinn í ár verði í meðallagi.