Drykkjulásar í vörubílana

Meira en fjórði hver nýr Volvo vörubíll í Svíþjóð er nú með drykkjulás, Drykkjulás er búnaður sem finnur áfengi í andardrætti ökumanns. Ef búnaðurinn finnur áfengislykt út úr ökumanni fer bíllinn einfaldlega ekki í gang. Carl Johan Almqvist, sem er yfirmaður umferðaröryggisdeildar Volvo vörubílaverksmiðjunnar, segir að drykkjulásarnir séu mjög mikilvæg öryggistæki þar sem áfengi komi við sögu í um 30 prósent þeirra umferðarslysa þar sem dauðsfall verður. Mikilvægi búnaðarins liggi því í augum uppi.

Almquist segir við Motormagasinet í Svíþjóð að bindindismenn meðal vöruflutningabílstjóra séu sjaldgæfir og vegna þess að afleiðingar óhappa og slysa þar sem þungaflutningabílar eigi hlut að máli séu líklegar til að verða mjög alvarlegar, þá skipti miklu að hindra að nokkur einasti maður með áfengi í blóðinu aki slíku tæki af stað út í umferðina.

Volvo Lastvagnar hafa einir vörubílaverksmiðja í heiminum boðið upp á drykkjulása í nýjum vörubílum allt frá árinu 2005. Áhugi kaupenda á lásunum hefur aukist jafnt og þétt síðan þá og mörg stór og meðalstór fyrirtæki í vörubílaútgerð panta nú nýja bíla með búnaðinum. – Stöðugt fleiri flotarekendur líta á lásana sem gæðastjórnunaráhald. Þeir vilja vera vissir um að bílar þeirra séu aldrei í umferð með ölvaðan eða timbraðan ökumann við stýrið, segir Carl Johan Almqvist.

Drykkjulásarnir eru ekki staðalbúnaður heldur nokkuð dýr aukabúnaður. En til að auka útbreiðsluna ákvað stjórn Volvo Lastvagnar í Svíþjóð að lækka verð á búnaðinum á þessu ári. Við það tóku kaupendur við sér og hefur hlutfall nýrra vörubíla með búnaðinum aldrei verið hærra en í ár. Auk þess hefur búnaðurinn í talsverðum mæli verið settur í eldri bíla.

Hlutfall vörubíla og stórra bíla í umferð sem eru með drykkjulás er hæst í Svíþjóð en áhuginn fer vaxandi. Þannig hafa bæði Finnar og Frakkar leitt í lög að slíkur búnaður skuli vera í skólabílum.