Dýrasta bílaeldsneyti á Vesturlöndum er á Íslandi

Dýrasta bílaeldsneytið í Evrópu um þessar mundir er á Íslandi. Bensínlítrinn kostar í sjálfsafgreiðslu kr. 109,20 og dísilolían er enn dýrari og kostar 109, 60.
Næst dýrasta bensínið er í Hollandi og  kostar lítrinn þar kr. 106,70. Í þriðja sætinu er Belgía. Þar kostar bensínlítrinn kr. 100,40. Bretland er í fjórða sæti og kostar lítrinn þar kr. 99 og í fimmta sætinu er svo Noregur þar sem bensínið kostar kr. 98,30. Ódýrasta bensínið fæst í Eistlandi. Þar kostar lítrinn kr. 59,20.
Dísilolían er yfirleitt nokkru ódýrari en bensínið eða tæplega fimm krónum að meðaltali í álfunni. Ódýrust er hún í Lettlandi og kostar þar kr. 60,8. Dýrust er hún hins vegar á Íslandi og kostar kr. 109,60. Dísilolían er dýrari en bensínið í Bretlandi, Eistlandi, Íslandi, Slóvakíu, Slóveníu, Sviss og Ungverjalandi.
Að vanda er bensínið ódýrast í Bandaríkjunum af Vesturlöndum. Þar kostar lítrinn 37 krónur og dísilolían 40,20 lítrinn.
Sjá nánar undir –Upplýsingar  hér á FÍB vefnum.