Dýrasta dísilolía heims hækkar enn

http://www.fib.is/myndir/Bensind.jpg

Stóru 0líufélögin þrjú hækkuðu í gær bensín um eina krónu og dísilolíu um tvær krónur og kostar nú dísilolíulítrinn með þjónustu hvorki meira né minna en kr. 139,90 Bensínlítrinn kostar eftir hækkun með þjónustu kr. 136,70.

Dísilolían, sem er ein sú aldýrasta í heiminum, hefur aldrei áður verið jafn dýr til íslenskra bíleigenda. Fréttir af verðþróun á erlendum mörkuðum auka heldur ekki á bjartsýni um verðlækkun á næstunni, þvert á móti.

Hráolíutunnan er nú í rétt tæpum 100 dollurum þegar þetta er ritað. Og ekki gerir það útlitið bjartara að dollarinn hefur verið að styrkjast gagnvart krónu að undanförnu.

Hátt eldsneytisverð hefur áhrif á vöruverð. Skipin og flugvélarnar líkt og bílarnir ganga fyrir olíueldsneyti og vöru- og fólksflutningar verða dýrari.

FÍB hefur áður komið þeim skilaboðum á framfæri við stjórnvöld að grípa inn í aðstæður sem þessar og draga úr ofurskattheimtu sinni á bensín og dísilolíu til notkunar á bifreiðar þegar heimsmarkaðsverð á eldsneyti rýkur upp.

Það hefur áunnist á liðnum árum að horfið hefur verið að mestu frá hlutfallssköttum í fasta krónutöluskatta á bílaeldsneyti. En vegna mjög hás og hækkandi innkaupsverðs aukast að sama skapi virðisaukaskattstekjur ríkisins af eldsneytissölu.

FÍB telur að nóg sé komið og að kominn sé tími til viðbragða af hálfu ríkisvaldsins.