Dýrasti bíllinn keyptur á 19 milljarða króna

Þýski bílaframleiðandinn Mercedes Benz hefur selt einstaka útgáfu af Uhlenhaut Coupe bifreiðinni sem framleidd var árið 1955 fyrir einn milljarð danskra króna, tæplega 19 milljarðar íslenskar krónur. Aldrei fyrr hefur verið greidd hærri upphæð fyrir bíl en þess má geta að þessi tegund bíls var aðeins framleidd í tveimur eintökum á sínum tíma.

Orðrómur hefur verið á kreiki um þessi kaup í nokkurn tíma en nú hafa þau verið staðfest af Mercedes Benz og uppboðshaldaranum RM Sothebys í Lundúnum.

Nafn kaupandans verður ekki gefið upp. Fjárhæðin, sem fékkst fyrir bifreiðina, á að stærstum hluta að renna í nýstofnaðan sjóð sem veita á styrki til náms og rannsókna ungs fólks í nýrri sjálfbærri bílatækni um allan heim.

Fyrra metið var frá árinu 2018 þegar Ferrari 250 GTO af árgerðinni 1962 var seldur á uppboði í Bandaríkjunum fyrir 6.5 milljarða króna. Sama ár átti önnur 250 GTO bifreið að hafa verið keypt í einkasölu fyrir um 3.5 milljarða, en það hefur ekki fengist staðfest opinberlega.