Dýrir bílar-dýrt viðhald

Breska neytendatímaritið Which hefur skoðað bilanir og viðgerðareikninga nokkurra bílategunda og –gerða. Meginniðurstaðan er sú að því dýrari sem bíllinn er, þeim mun dýrari eru viðgerðirnar og viðhaldið.  Þeir sem eiga bíla eins og Land Rover Discovery eða Volkswagen Touareg megi búast við mjög háum verkstæðisreikningum.

Tímaritið hefur spurt 547 þúsund breska bíleigendur hverju þeir kosti árlega til viðgerða og viðhalds bíla sinna. Í ljós kemur að eigendur Land Rover Discovery 3 sitja uppi með þann bíl sem dýrastur er í viðhaldi. Eigendurnir greiða að meðaltali rúmlega 96.000 krónur á ári fyrir viðgerðir.

Næst dýrastur er Volkswagen Touareg. Eigendur hans borga að meðaltali 88.300 krónur fyrir viðgerðir á honum árlega.

Bæði Land Roverinn og VW Touareg eru dýrir bílar að kaupa og samkvæmt þessu mjög dýrir í viðhaldi. Öðru máli gegnir um  einn ódýrasta  bílinn sem er Kia Picanto. Viðgerðakostnaður hans er miklu lægri eða að meðaltali 2.700 krónur á ári

Samkvæmt þessari rannsókn Which eru algengustu ástæður þess að farið er með bílana á verkstæði til viðgerðar eru bilanir í fjöðrunarbúnaði og í loftkælingunni (AC miðstöðinni). Hvað varðar VW Touareg þá virðast bilanir í útblásturskerfi hrjá hann sérstaklega.

Talsmenn VW hafa mótmælt könnuninni vegna þess að á henni séu vankantar. Svipað hafa talsmenn Land Rover gert, en jafnframt tekið fram að nýjustu árgerðir Land Rover bílanna séu miklu betri og síður bilanagjarnar en þær eldri.