ED95 dísilvélaspíri í Stokkhólmi

Nú geta eigendur  dísilbíla (allavega sumir) í Stokkhólmi keypt lífrænt eldsneyti á bíla sína, að vísu bara á einni bensínstöð ennþá. Eldsneytið hefur hingað til verið á tilraunastigi og hluta af strætisvögnum borgarinnar verið ekið á þessu eldsneyti. En ekki gengur ennþá að nota eldsneytið á dísilvélar sem ekki hafa sérstaklega verið aðlagaðar að spíranum.

Þetta eldsneyti heitir ED95 og er að 95 prósentum etanól, eða spíri. Fimm prósentin sem út af standa er glykól sem blandað er í spírann til að dísilvélin geti „torgað“ honum og komið af stað bruna inni í vélunum svipað og um hefðbundna dísilolíu væri að ræða.

Etanoleldsneytið E85 sló í gegn í Svíþjóð fyrir nokkrum árum. E85 er etanól eða spíri að 85 hundraðshlutum og bensínvélar ganga á því á mjög svipaðan hátt og bensíni. Spírinn er unninn úr lífrænum úrgangi, ekki síst frá trjá- og pappírsiðnaði Svía og landbúnaði.

En lífræn dísilolía hefur hingað til verið búin til með því að rækta repju og pressa síðan olíu úr repjunni, eða þá úr sólblómum, maís o.fl. Dísilvélaeldsneyti úr spíra er þannig nýjung sem verið hefur á tilraunastigi og einvörðungu notuð á 500 strætisvagna í Stokkhólmsborg og fáein önnur ökutæki. Dísilvélarnar í strætisvögnunum eru frá Scania og eru sérstaklega útbúnar til þess að geta gengið á etanólinu. Nokkrir fleiri aðilar í Svíþjóð hafa einnig unnið að því að aðlaga dísilvélar að þessu ED95 eldsneyti.

ED95 eldsneytið getur semsé ekki gengið á venjulegar dísilvélar sem ekki hafa verið aðlagaðar að því. Þannig gagnast þessi eini almenni útsölutankur ekki eigendum venjulegra dísilbíla sem ekki hafa verið aðlagaðir.