Efnarafalsbílar í fjöldaframleiðslu

Í vetnisrafbílum er efnarafall sem breytir vetni í rafstraum sem svo knýr bílinn. Slíkir bílar hafa lengi verið á döfinni og margir minnast tilrauna Mercedes Benz hér á Íslandi með þesskonar strætisvagna fyrir bráðum tveimur áratugum. En frá og með næsta ári byrjar fjöldaframleiðsla á nýjum Toyota vetnisrafbílum. Bílarnir frá Toyota og nokkrum fleiri framleiðendum verða á markaði nokkurra landa Norður Evrópu frá og með næsta ári samkvæmt sérstöku samkomulagi.framleiðendanna og ríkjanna.

Um árabil hafa orkuskipti í samgöngum verið á dagskrá, m.a. hér á landi. Markmiðið hefur verið og er að draga sem mest úr brennslu jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Mörgum þykja þessi umskipti ganga full hægt og eru sumir ólatir við að viðra kenningar um voldugum samsærisaðilum sé um að kenna. Nærtækari skýring er þó sú að seinaganginn megi fyrst og fremst rekja til þess að öll tækni þarf sinn þróunartíma til að yfirstíga ýmsa þröskulda. Í vegi hleðslurafbíla hafa þeir ekki síst verið takmarkað geymslurými fyrir raforku um borð í bílunum og þar með takmarkað drægi bílanna og langur hleðslutími. Þröskuldarnir í vegi vetnisrafbílanna hafa verið mjög dýrir efnarafalar og umtalsvert orkutap sem fólgið er í því að framleiða rafstraum til að búa til vetni sem síðar er aftur breytt í rafmagn í bílunum. Þá hafa innviðir eins og hleðslustöðvar og vetnisstöðvar verið af mjög skornum skammti.

En tæknin þróast áfram og búnaðurinn batnar. Stigvaxandi fjöldaframleiðsla lækkar einingaverðið og öflugri innviðir gera rafbílana notadrýgri. Og eftir því sem olíulindir heimsins taka að ganga til þurrðar verða þeir nauðsynlegri. Þessvegna má telja víst að mikilvægi rafbíla og vetnisrafbíla muni aukast jafnt og þétt næstu ár og áratugi. Renault-Nissan samsteypan og nýsköpunarfyrirtækið Tesla hafa veðjað á hleðslurafbíla fyrst og fremst en Mercedes, Honda, Hyundai, Toyota o.fl. hallast meir að vetnisrafbílnum. Þeir síðarnefndu hafa verið með nokkuð stóra flota tilrauna – vetnisrafbíla í höndum valinna ökumanna og allir segja þeir að vetnisrafbílatæknin verði almennur valkostur bílakaupenda fyrir árið 2020.

Áðurnefndur vetnisrafbíll Toyota - Fuel Cell Sedan, eins og hann er nefndur fer í fjöldaframleiðslu eftir næstu áramót. Hann kemur fyrst á almennan markað í framleiðslulandinu  Japan í aprílmánuði nk. en í Bandaríkjunum og Evrópu kemur hann á markað upp úr miðju næsta sumri. Í Japan mun bíllinn kosta í kring um 7,8 milljónir til að byrja með. Hvert verðið á honum verður í Evrópu er enn ekki ljóst né hvar í Evrópu hann verður markaðssettur fyrst.