Eftirlíkingar viðurkenndra vörubíla- og rútudekkja á leið til Evrópu

http://www.fib.is/myndir/Continental-logo.jpg

Continental hjólbarðaframleiðslufyrirtækið í Þýskalandi hefur sent frá sér viðvörun um að ódýrar og miður góðar eftirlíkingar af Continental séu í umferð í Þýskalandi. Continental í Danmörku varar við því að eftirlíkingarnar séu á leið til Danmerkur og fleiri N. Evrópulanda.

Það eru því greinilega fleiri vörur en fatnaður og ýmis merkjavarningur auk geisladiska sem dembt er á vestræna markaði undir fölsku flaggi. Nú er það dekkjaiðnaðurinn sem neyðist til að bregðast við innrás austurevrópskra og asískra framleiðenda sem eru að setja á markað eftirlíkingar af viðurkenndum og E-merktum Continental hjólbörðum. Í frétt frá Continental segir að fösluðu vörubíladekkin líkist vissulega Continental dekkjunum, mynstrið sé nokkurnveginn það sama en þar með sé það upptalið.
The image “http://www.fib.is/myndir/Vorubilsdekk.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Framkvæmdastjóri Continental í Danmörku segir við Motormagasinet að þekkja megi fölsuðu dekkin á því að vörumerki eða lógó Continental sem sé að finna á hlið raunverulegra Continental dekkja vanti á fölsuðu dekkin. Þá séu innviðir þeirra aðrir og verri en fyrirmyndarinnar – hliðarnar séu mun veikari og geti auðveldlega látið undan og dældast í beygjum, stýring og rásfesta sé ófullnægjandi, slitþol lítið og síðast en ekki síst séu þessar eftirlíkingar ekki prófaðar og gerðarviðurkenndar af þar til bærum aðilum og geti af öllum þessum fyrrnefndu ástæðum verið varasöm og jafnvel hættuleg.

Hann segir að vörubíla og rútudekk frá Continental séu byggð upp af allt að 15 netlögum úr bæði stálvír og nylonefnum og að áratuga reynsla, vísindaleg þekking og prófanir liggi að baki þeim - allt atriði sem miða að því að búa til örugg, slitsterk og þægileg dekk. Flesta þessa eiginleika skorti eftirlíkingarnar.

Fölsuðu dekkin hafa verið í umferð í Þýskalandi og hafa Evrópuhöfuðstöðvar Continental sem eru í Þýskalandi sent út viðvaranir til allra dreifingaraðila, dekkjaverkstæða og vörubílaútgerða í landinu vegna eftirlíkinganna og benda þar á að dekkin geti verið hættuleg auk þess að valda Continental miklum ímyndarskaða.