Eftirsóttasti Volvoinn fær loks arftaka

Volvo XC90 er sá bíll sem hvað vinsælastur hefur orðið Volvobíla. Best gekk XC90 árið 2005 þegar bíllinn var lang mest seldi Volvo bíllinn og stærsta útflutningsvara Svíþjóðar og skilaði yfir 700 milljarða gjaldeyristekjum í íslenskum krónum talið.

En þrátt fyrir að vel gengi með þennan ágæta sjö manna jeppling þá fékkst Ford, sem þá átti Volvo, ekki  til að eyða miklu í það að hanna og þróa nýjan arftaka. Rökin voru þau að markaður fyrir stóra jepplinga (SUV) væri að dragast saman. Hjá Volvo voru menn á þeim tíma reyndar byrjaðir að hugsa um framtíðina en Ford réði og öll þróunarvinna við nýja kynslóð bílsins, sem átti að koma 2009, var stöðvuð um mitt ár 2007. Síðan þá hafa minniháttar „andlitslyftingar“ verið látnar duga. En engu að síður gengur XC90 bærilega ennþá þótt vissulega megi segja að kominn sé tími á nýja kynslóð.

 En nú er Ford ekki lengur eigandi Volvo, heldur Geely í Kína og Kínverjarnir standa greinilega ekki vegi nýrrar kynslóðar, þvert á móti. Stefan Jacoby forstjóri Volvo hefur nefnilega staðfest að tímaskeið gamla og góða XC90 sé brátt á enda runnið og nýr arftaki væntanlegur 2014. Þetta kom fram á blaðamannafundi Volvo í tengslum við bílasýninguna í Los Angeles, en lang stærsti útflutningsmarkaður fyrir Volvo XC90 hefur alla tíð verið Bandaríkin.

Engar myndir hafa birst ennþá af nýjum XC90 en bandaríska bílatímaritið Car and Driver hefur birt teikningar sem sagðar eru frá hönnunarstöð Volvo í Kaliforníu. Þótt ekki sé líklegt að útlitið verði alveg það sem teikningarnar sýna, þá eru þær vísbending um hvers vænta má þegar fyrsta frumgerðin verður sýnd á einhverri alþjóðlegu bílasýningunni á næsta ári.