Eftirspurnin fram úr björtustu vonum

Eftirspurnin eftir nýja Nissan Leaf bílnum er mun meiri en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Hér á landi er biðin 6-7 mánuðir en ný útgáfa af Nissan Leaf, með nýju útliti og stærri rafhlöðu, var kynnt í apríl síðastliðnum og voru hundruð forpantana gerðar hér á landi.

Kaupendur sem pöntuðu bíl í apríl hafa nú nokkrir fengið upplýsingar um seinkun fram í nóvember. Kaupendur hafa verið upplýstir um að þessar tafir hafa sína eðlilegustu skýringar en eftirspurnin er tvöföld á við framleiðslugetuna á bílnum yfir höfuð. Nú horfi þó til betri vegar og framleiðsla verið aukin á ný. Biðtíminn er þó langur.

Í dag er 6-7 mánaða bið eftir bíl en allt útlit er fyrir að þeir sem áttu pantaðan bíl frá kynningunni í apríl fram í júní muni fá bíla afhenta á þessu ári. Ef allt gengur að óskum verða um 300 nýir Nissan Leaf bílar afhentir nýjum eigendum hér á landi á þessu ári.