Eigendur Citroën C4 í Bretlandi eru ánægðastir bílaeigenda

Eigendur Citroën C4 bíla í Bretlandi eru ánægðastir allra bílaeigenda árið 2023. Þetta kemur fram í árlegri könnun í Bretlandi sem birtir niðurstöður fyrir notendaupplifun á 75 bílategundum.

Samkvæmt eigendunum skora Citroën bílarnir mjög hátt í að vera þægilegir, vel byggðir, áreiðanlegir, hagkvæmir í rekstri, með góðan öryggisbúnað og töldu þeir sig fá mikið fyrir peninginn. Eigendur Citroen gáfu bílnum einkunnina 93,4% eða heilu prósentustigi yfir næst ánægðustu eigendurna. Eigendur Kia Sorento komu í öðru sæti með 92,4% og í þriðja sæti eigendur Lexus RX með 92,1%

Svarendur gefa bílum sínum ennfremur einkunn fyrir ýmsa mælikvarða, þar á meðal rekstrarkostnað, frammistöðu og tækni. Ökumenn voru sérstaklega hrifnir af gæðum aksturs og meðhöndlunar, óháð því hvaða aflrás var valin.

Greg Taylor, framkvæmdastjóri Citroën í Bretlandi, segir þetta mikla viðurkenningu.

,,Mikið uppbyggingarstarf í bílaframleiðslunni hefur farið fram á síðustu árum. Árangurinn er bersýnilega að koma í ljós,“ segir Greg Taylor.