Eigendur þýskra bíla ánægðastir

Ný AutoIndex könnun meðal danskra bifreiðaeigenda sýnir að þeir eru almennt ánægðari með bíla sína en áður. En ánægðastir eru eigendur þýskra bíla, sérstaklega þó eigendur BMW bíla. Þeir eru ánægðastir allra.

Hin árlega AutoIndex könnun er mjög viðamikil. 36 þúsund bifreiðaeigendur eru spurðir um flest sem lýtur að bifreiðaeign og rekstri bifreiða, hversu vel eða illa bíllinn hefur reynst og hvernig viðmót sölu- og þjónustuaðila var og er BMW í efsta sætinu þriðja árið í röð. Audi er í öðru sæti og Mercedes Benz í því þriðja. Mercedes var í öðru sætinu í fyrra en nú hefur Audi tekið það.

Danskir bílafræðimenn telja að ástæður þess að BMW sé svona vinsæll séu ýmsar: Fyrst og fremst séu bílarnir sjálfir vandaðir. Þá hafi viðmót söluumboða og þjónustustöðva verið markvisst bætt á undanförnum árum og samanlagt skili það BMW efsta sætinu þriðja árið í röð.

Á hinum enda skalans situr sem fyrr Chevrolet í neðsta sætinu af 24. En aðeins virðist landið þó hafa risið frá könnun síðasta árs. En það skiptir kannski ekki miklu úr því sem komið er því að General Motors hefur ákveðið að draga Chevrolet vörumerkið, sem aðallega eru bílar frá Kóreu, út af Evrópumarkaði frá og með árslokum 2015.

FDM, systurfélag FÍB í Danmörku hefur framkvæmt AutoIndex kannanir í Danmörku undanfarin 12 ár. Þessi nýjasta könnun sýnir að mun fleiri bíleigendur eru ánægðir en nú en voru í fyrri könnunum. Það getur þýtt að bæði bílarnir sem og þjónusta við þá hafi almennt batnað. Könnunin og aðrar kannanir af sama tagi geta sömuleiðis verið góðar fyrir fólk í bílakaupahugleiðingum að hafa til hliðsjónar áður en það tekur ákvörðun um hvaða tegund af bíl skuli keypt.

AutoIndex könnunin er talsvert viðamikil sem fyrr segir. Í henni eru lagðar 120 spurningar fyrir 36 þúsund bifreiðaeigendur um bílana, bilanasögu þeirra, þjónustu og viðmót söluumboða, viðgerða- og þjónustuverkstæða og svo auðvitað um bílinn sjálfan, aksturseiginleika hans og meðfærileika í daglegri notkun. Vægi þeirra spurninga er lúta að bílnum sjálfum, þægindum og rekstraröryggi er 40 prósent. Vægi þeirra spurninga er lúta að framgöngu söluumboðs, þjónustuverkstæða og tryggð kaupanda við vörumerkið vega síðan hver um sig 20 prósent.