Eigendur Toyota ánægðustu bíleigendurnir í Danmörku

http://www.fib.is/myndir/Toyotalogo.jpg
Það munaði litlu í hinni dönsku AutoIndex-könnun siðasta árs á milli BMW og Toyota. Þá og þarnæstu tvö árin á undan í röð var BMW sigurvegarinn en nú gerist það að Toyota er sú bíltegund sem danskir bíleigendur eru ánægðastir með að öllu leyti. Könnunin tekur til atriða eins og ánægju (eða óánægju) með sjálfan bílinn, með viðmót sölu- og þjónustuaðila og allan þeirra viðurgerning.

AutoIndex er viðamikil könnun þar sem mæld er ánægja fólks með mismunandi tegundir bíla og væntingar til þeirra. Atriði eins og traustleiki bílsins og rekstraröryggi, aksturseiginleikar, tryggð við vörumerkið og ímynd koma við sögu auk þjónustu umboðs- og söluaðila og viðmóts þeirra gagnvart bíleigendum. Segja má að Saab hafi treyst sig afgerandi í sessi hjá dönskum bíleigendum með því að hreppa núna annað sætið og ýta BMW alla leið niður í það þriðja. http://www.fib.is/myndir/Autoindex08.jpg

Kia vermir botnsætið af þeim 23 bílamerkjum sem könnunin náði til. Í fyrra lenti Kia einnig neðst og tók þá við botnsætinu af Fiat sem færist upp um sæti. Segja má að Kia hafi „treyst“ sig í sessi í botnsætinu því að tegundin fékk enn færri stig en í könnuninni í fyrra. Fiat sem enn er í næstneðsta sæti hefur hins vegar bætt við sig stigum og virðist vera á uppleið. Frönsku merkin Renault, Citröen og Peugeot eru svo í 19.-21. sæti.

Þetta er í fimmta sinn sem AutoIndex-könnunin er gerð í Danmörku. Könnunin var gerð í janúar og febrúar sl. og náði til 23 þúsund bifreiðaeigenda í Danmörku. Hún var eins og undanfarin ár unnin af markaðsrannsóknafyrirtækinu Loyalty Group A/S fyrir FDM sem eru systursamtök FÍB.