Eignast Volkswagen Karmann?

Hið gamlagróna bílabreytingafyrirtæki Karmann í Osnabrück í Þýskalandi hefur síðustu árin átt í miklum rekstrarerfiðleikum. Fyrirtækið fékk greiðslustöðvun í apríl í vor og óvissa hefur ríkt síðan og ríkir enn um hvort Karmann lifir eða deyr. En í vikunni greindi fréttastofa Reuters frá því að Volkswagen vildi nú kaupa Karmann en mönnum gengi erfiðlega að finna út úr því hvers virði Karmann væri eiginlega.

Karmann Ghia árgerð 1967. Gullfallegur blæjubíll.


Karmann er lang þekktast fyrir að breyta þýskum fjöldaframleiðslubílum í opna blæjubíla. Eftir seinna stríð voru það ekki síst Volkswagenbílar sem Karmann breytti í blæjubíla en frægasti Karmann bíllinn var tveggja sæta sportbíll sem Karmann byggði á gömlu VW bjöllunni - Karmann Ghia. Þessi bíll þótti og þykir enn afburða fallegur vagn og er í dag eftirsóttur safngripur.  

VW 1303 bjalla frá Karmann.

Á þessu ári hefur Karmann satt að segja haft lítið að gera. Verksamningar við bílaframleiðendur sem tryggja stöðugan rekstur hafa látið á sér standa. Síðasti slíki samningurinn var um að framleiða CLK blæjubíla fyrir Mercedes Benz en hann rann út í júnímánuði og stjórn Karmann tókst ekki að landa nýjum verksamningi af sama tagi. Ljós í myrkrinu var þó að stjórnendur Volkswagen hófu viðræður við Karmann um framleiðslu á nýjum Volkswagen rafmagnsbíl. Af frétt Reuters má ráða að þær viðræður hafi þróast í þá átt að Volkswagen hreinlega kaupi Karmann.

Karmann er nú í eigu þriggja fjölskyldna; Battenfeld, Boll og Karmann sem vilja fá 65 milljónir evra fyrir fyrirtækið en fulltrúar Volkswagen tellja það allt of hátt samkv frétt Reuters. Tímaritið der Spiegel segir að VW sé tilbúið að greiða mjög lága tveggja stafa milljónatölu í evrum talið. Það gæti þýtt 10-12 milljónir evra þannig að talsvert ber í milli, sé þetta rétt.