Eindregin andstaða við veggjöld

Markaðsrannsókna- og könnunarfyrirtækið MMR birti í gær niðurstöður könnunar á því hvort fólk sé almennt fylgjandi eða andvígt því að sett verði á veggjöld til að fjármagna nýframkvæmdir í samgöngumálum.

Skemmst er frá að segja að mikill meirihluti þeirra sem tók afstöðu voru andvígir veggjöldum eða  81,9%. Lítill munur reyndist á afstöðu fólks eftir því hvort það býr á höfuðborgasvæðinu eða úti á landi. Andstaðan við veggjöld reyndist mest á meðal Sjálfstæðismanna, en 88,9% þeirra sögðust frekar eða mjög andvígir hugmyndum um veggjöld til fjármögnunar á nýframkvæmdum í samgöngumálum. Könnun MMR er hér að finna.

Niðurstöður þessarar könnunar sem birtist nokkrum dögum eftir að glæsilegri undirskriftasöfnun FÍB gegn vegatollunum lauk, staðfesta enn frekar hver vilji almennings er í þessu máli. Óskandi er að stjórnvöld beri gæfu til að taka mark á honum. Það virðast Samtök atvinnulífsins hins vegar ekki tilbúin til að gera því að þann 19. janúar sl. birtist þessi grein á heimasíðu samtakanna. Eftir henni að dæma virðist lítill bilbugur á þessum samtökum, en þó einhver, því að í niðurlagi greinarinnar segir þetta: „Til þess að af framkvæmdum verði þarf að skapa um þær víðtæka sátt sem nær til þeirra sveitarfélaga sem málin varða og fjalla um framtíðarskipan fjármögnunar á vegaframkvæmdum og að hvaða marki megi nýta notkunargjöld á vegum í þeim tilgangi.“