Einfaldur loftmælir

Sprotafyrirtækið QuickFill í bænum Maribo á dönsku eynni Lálandi hefur þróað hjólbarðaventil sem er þeirrar náttúru að þegar nóg loft er komið í hjólbarðann gefur hann frá sér hljóð. Ekki þarf því að mæla loftþrýstinginn þegar pumpað er í dekk. Ventillinn, sem er einskonar hetta sem skrúfuð er á sjálfan ventilinn, kemur á almennan markað í aprílmánuði nk. Motormagasinet greinir frá þessu.

Samkvæmt marg endurteknum könnunum á ástandi hjólbarða undir bílum, er um það bil sex af hverjum bílum í umferð með vitlausan (of lágan) loftþrýsting. Rangur og misjafn loftþrýstingur er ávísun á versnandi aksturseiginleika, verri hemlun og aukna eldsneytiseyðslu. Talið er að ef allir bílar heims væru keyrðir með réttum þrýstingi í hjólbörðum myndu tveir milljarðar lítra eldsneytis sparast árlega. Framkvæmdastjóri QuickFill telur að nýi ventillinn góði geti orðið til þess að ökumenn nenni oftar að tékka á loftþrýstingnum og fleiri bílar í umferð með réttan loftþrýsting leiðir til sparnaðar og betra öryggis í umferðinni.

Sem fyrr segir er QuickFill ventillinn skrúfaður á hjólbarðaventilinn í stað hettunnar sem þar er venjulega og er þar síðan. QuickFill ventlar munu fást með algengustu þrýstimörkum fólksbíla, t.d. 2,4 kílóum á fersentimetra. Þegar síðan dælt er lofti í dekkið flautar ventillinn og gefur með því til kynna að nú sé réttum þrýstingi náð. Hann gefur hins vegar ekkert upp um loftþrýstinginn þess í milli.

 Í fyrstunni er ætlunin að bjóða QuickFill ventilinn í Danmörku en frá 2015 er ætlunin að hefja útflutning til hinna Norðurlandanna og Þýskalands og þar á eftir til Bandaríkjanna. Ekki er enn ljóst hvert verðið verður, en líklegt að það verði í kröng um 200 danskar krónur.