Einkabíll forstjóra Daimler Benz er Smart

http://www.fib.is/myndir/Dieter-Zetsche-guitar.jpg
Dieter Zetsche forstjóri Mercedes Benz.

Þýska tímaritið Der Spiegel birtir í dag á heimasíðu sini ágætt viðtal við Dieter Zetsche forstjóra DaimlerChrysler (sem brátt mun bara heita Daimler) sem tekið er á bílasýningunni í Frankfurt. Rætt er við Zetsche um (bíl)-heima og geima, um umhverfisstefnu þýskra og evrópskra stjórnvalda sem lýtur að bílum en fyrst var forstjórinn spurður um hverskonar bíl hann sjálfur ekur: Vinnubíll Zetsche er Mercedes Benz 600 sem hann segir að eyði rétt undir 14 á hundraðið. Einkabíllinn sé hins vegar Smart. http://www.fib.is/myndir/Smart-Fortwo_LE_One.jpg

Aðspurður um hversvegna Mercedes Benz hefur aldrei af alvöru farið út í það að byggja umhverfismilda tvinn-fólksbíla eins og Toyota og skapa sér þannig ímynd umhverfishreinleika og hvort hann öfundi ekki Toyota af því orðspori segir Zetsche: -Alls ekki því að okkar hreinu dísilvélar standast tvinnvélunum fyllilega snúning í þeim efnum. En ég virði dugnað þeirra í því að markaðssetja tvinnbílana,- segir Zetsche og bætir við að einkabíllinn sinn, Smartinn, eyði minna eldsneyti en nokkur einasta Toyota.

Blm. Der Spiegel bendir á að tvinnvélabúnaðurinn sé eiginlega fyrsta nýjungin í bílvélum sem fram hefur komið í hundrað ár. Sú staðreynd að það eru Japanir sem koma fram með þessa nýjung en ekki það fyrirtæki – Daimler -  sem kennt er við manninn sem fann upp sjálfan bílinn hljóti að benda til þess að stjórnendur Daimler hafi „sofnað undir stýri.“

Svar Zetsche er svohljóðandi: -Það vill nú svo til að við erum í forystu í tvinn-geiranum, - að vísu í flokki strætisvagna því að þar er mest skynsemi í þessari tækni. Vegna þess að strætisvagnar eru sífeldlega að taka af stað, hemla og taka af stað er langsamlega mest gagn að tvinntækninni þar.-
http://www.fib.is/myndir/Bens%20S600.jpg
Hann segir að hjá Mercedes sé jafnframt unnið að því að þróa og bæta ýmsa aðra tækni eins og beina eldsneytisinnsprautun, „Bluetec,“ efnarafala og fleira auk tvinntækninnar fyrir fólksbíla. Hið síðastnefnda sé ekki síst gert vegna þess að markaðurinn krefst tvinnbíla enda sé því oft haldið fram að tvinnbílar séu eina vitið í bíltækni nánustu framtíðar. Svo sé þó alls ekki. Að hluta sé ástæðan sú að tvinnbílar séu dýrir í framleiðslu og flóknir sem takmarki markaðshæfi þeirra. „Við reiknum með að heimssala á tvinnbílum aukist og verði samtals ein milljón bíla árið 2010 sem  er tæplega 2% heildarsölunnar. Til samanburðar verður heimssala á dísilfólksbílum 13 milljónir bíla árið 2010.“