Eins lítra VW bíllinn í framleiðslu

Rúm 10 ár eru nú liðin síðan þáverandi stjórnarformaður VW; Ferdinand Piëch keyrði frá höfuðstöðvunum í Wolfsburg til Hamborgar á tilraunabíl sem eyddi tæpum einum lítra af eldsneyti á hundraðið. Þá hét Piëch því að bíllinn færi í almenna framleiðslu áður en hann sjálfur hætti stjórnarformennsku í VW. Loksins nú ætlar VW að hefja framleiðsluna, að vísu á talsvert breyttum bíl frá frumgerðinni sem Piëch ók.

http://www.fib.is/myndir/XL1-2.jpg
http://www.fib.is/myndir/XL1-3.jpg

Eins lítra bíllinn er kallaður svo, vegna þess að hann brennir einungis einum lítra af eldsneyti á hundraðið. Sá sem Piëch gamli ók á til Hamborgar var tveggja sæta og var farþegasætið fyrir aftan ökumannssætið. Eftir aksturinn, sem vakti verulega athygli í bílaheiminum, héldu hönnuðir og tæknimenn VW áfram þróun eins lítra bílsins og á endanum breyttist hönnunin þannig að ökumaður og farþegi sitja nokkurnveginn hlið við hlið. Og nú er sú framleiðsluútgáfa eins lítra bílsins tilbúin og verður sýnd á bílasýningunni í Genf sem hefst eftir nokkra daga. Hún heitir VW XL1.

XL1 er tvinn- eða tvíorkubíll með lítilli tveggja strokka 47 hestafla dísilvél og 27 hestafla rafmótor sem saman eða í sínu hvoru lagi eftir atvikum skila afli til afturhjólanna um 7 gíra DSG gírkassa. Það nægir til að skila bílnum úr kyrrstöðu í hundraðið á 12,7 sekúndum og upp í allt að 160 km hraða á klst. Hann er mjög straumlínulagaður og með loftmótstöðustuðul upp á 0,189 sem er svo lágt fyrir bíl að fá, ef nokkur dæmi eru um jafn lága loftmótstöðu bíls.

Þyngd bílsins er innan við 800 kíló, að lengd er hann 3888 mm, 1665 mm að breidd og 1153 mm á hæð. Vélasamstæðan er afturí en framí er rafgeymasamstæða.

Í frétt frá Volkswagen segir að bíllinn verði handbyggður í Osnabrück í bílamiðju sem áður var í eigu Karmann, sem framleiddi fyrrum ýmsar sérútgáfur VW bíla, ekki síst blæjubíla. Trúlega þýðir þetta að eins lítra bíllinn verður ekki byggður í neinum stórupplögum og líka að hann verði ekkert sérstaklega ódýr heldur.