Einungis sex bílaframleiðslufyrirtæki eftir kreppuna

http://www.fib.is/myndir/Sergio_Marchionne.jpg
Sergio Marchionne forstjóri Fiat á Ítalíu er ekki bjartsýnn á framtíð bílaiðnaðarins. Hann segir að einungis sex af bílaframleiðslufyrirtækjum heimsins muni lifa af þá kreppu sem nú er dynja yfir iðnaðinn. Þeir framleiðendur sem byggja minna en 5,5 milljón bíla á ári muni ekki lifa hana af. Hvað varði Fiat segir hann að nú sé stigið á allar bremsur.  

Sergio Marchionne segir við Automotive News Europe að  næstu 24 mánuðir skeri úr um það hverjir lifi áfram og hverjir leggi upp laupana að lokinni kreppunni sem hann segir að verði sú harðasta sem gengið hafi yfir bílaiðnaðinn.  Viðbrögðin við henni verði þau að fyrirtæki gefist upp og hætti eða sameinist í nýjum og stærri fyrirtækjum. Eftir muni þá standa sex risafyrirtæki; eitt bandarískt, eitt þýskt, eitt franskt-japanskt hugsanlega með útibú í Bandaríkjunum, eitt al-japanskt og eitt kínverskt.

Svo kemur til skjalanna eitt evrópskt fyrirtæki sagði Marchionni án þess að útskýra það frekar og aðspurður þá um framtíð BMW og Mercedes vlldi hann engu svara en sagði að greinin ætti eftir að breytast mjög. –Við getum ekki haldið áfram eins og við höfum gert. Sjálfstæðið á eftir að hverfa gersamlega,- sagði hann. 

Eins og nú háttar fyrirfinnast fimm framleiðendur sem framleiða 5,5 milljón bíla á ári. Þeir eru Toyota, GM, Volkswagen, Ford og Renault-Nissan. Aðspurður um hvernig gangi hjá Fiat sagðist hann standa á öllum bremsum. -Ég hef bremsað niður alla þróun nýrra gerða sem eru ekki þegar tilbúnar upp á 80-90 prósent. Arftaki Alfa Romeo 147 kemur örugglega, en ef þið spyrjið um jeppling frá Alfa Romeo þá er svarið nei – sagði forstjórinn. –Við fjöldaframleiðendurnir erum einskonar Wal-Mart vöruhús bílaheimsins. Við verðum að aðlaga okkur að nýrri viðskiptahugmynd ef vöruhúsið á að lifa, sagði Sergio Marchionne.