Eitt Evrópuökuskírteini eftir 26 ár

http://www.fib.is/myndir/Okuskirteini.jpg
Íslenskt ökuskírteini


Samgönguráðherra Evrópusambandslandanna eru sammála um að stefna að því að koma á einu ökuskírteini sem gildi innan Evrópusambandsins. Skírteinið nýja verður að öllum líkindum búið örgjörva til að auðvelda eftirlit og gera allt svindl og falsanir erfiðara og stuðla að betra öryggi í umferðinni. Þar sem málið er talsvert flókið í framkvæmd ætla ráðherrarnir sér 26 ár til að koma nýja sameiginlega skírteininu í gagnið. Þannig mun því nýja skírteinið taka gildi árið 2032 og önnur eldri falla úr gildi.

Í Evrópusambandslöndunum 25 og í löndum Evrópska efnahagssvæðisins; Íslandi, Noregi og Sviss, eru þessa stundina í gildi alls um 110 gerðir ökuskírteina. Þar á ofan bætist að margir sem hafa verið sviptir ökuskírteini sínu í heimalandinu annaðhvort eiga gilt ökuskírteini í öðru Evrópulandi frá fyrri dvöl sinni þar, eða hreinlega taka sig upp og fara í ökupróf í öðru landi til að öðlast ökuréttindi þar. Þau réttindi og það ökuskírteini eru síðan fullgild í heimalandinu þannig að hinn réttindalausi getur ekið um heima hjá sér á ökuréttindum annars Evrópulands eins og ekkert sé.

Á fundi samgönguráðherra Evrópusambandslandanna sl. mánudag urðu þeir sammála um að taka á þessu rugli öllu saman og gera það með því að koma á einu skírteini og einum réttindum fyrir öll löndin. Jafnframt verður stokkað upp í reglugerðafrumskóginum og einar og sömu reglur munu gilda um ökuskírteini fyrir öll ökutæki en ekki mismundandi reglur fyrir mismunandi ökuskírteini og mismunandi ökutæki eins og nú er. Tilskipun um breytingarnar mun taka gildi þegar á þessu ári og öðlast lagagildi í síðasta lagi árið 2012. Eftir það fá löndin aðlögunartíma en verða að vera búin að skipta út öllum ökuskírteinum fyrir hin nýju í síðasta lagi árið 2032. Ritzau fréttastofan greindi frá þessu.