Ekki fleiri afturhjóladrifnir bílar hjá GM í bili

http://www.fib.is/myndir/Bob_Lutz.jpg
Bob Lutz.


Framleiðslu- og þróunarstjóri General Motors, Bob Lutz sagði í viðtali við Chicago Tribune á dögunum að framvegis yrði öll áhersla á þróun framhjóladrifinna bíla og þróunarvinnu við afturhjóladrifna yrði hætt – í bili að minnsta kosti. Ástæðan er væntanleg lagasetning í Bandaríkjunuum í anda nýlegra laga í Kaliforníu um minni eldsneytiseyðslu og CO2 útblástur frá bílum.

„Nú ýtum við á pásutakkann,“ sagði Lutz og sagði að hinn nýi Chevrolet Camaro og Pontiac G8 væru það langt komnir að ekki gengi að hætta við þá. Hins vegar yrði tæpast um það að ræða að þróa fleiri gerðir út frá nýju Camaro grunnplötunni.

Bandaríska alríkisstjórnin hyggst nú setja lög á bílaframleiðslu Bandaríkjanna með ákvæðum um að meðaleyðsla nýrra bíla skuli minnka að meðaltali um fjögur prósent á ári. Fyrir GM munu þau lög þýða það að meðaleyðslan verður 6,9 l á hundraðið árið 2017 miðað við 8,5 lítra nú.

Bob Lutz telur að GM verði að líta sérstaklega á það að draga úr eyðslu afturhjóladrifnu bílanna um 30%. „Við verðum að pæla sérstaklega í því hvernig það verði gert,“ segir Lutz. Vandinn við þá segir hann vera þann að afturhjóladrifnir bílar eru stærri, þyngri og þyrstari en framhjóladrifnir.

Kalifornía og tíu önnur ríki hafa þegar sett lög um stórminnkaða útloftun CO2. Í reynd þýða lögin það að þegar þau hafa að fullu tekið gildi verði meðaleldsneytiseyðsla bíla einungis 5,4 lítrar á hundrað km. Alan Weverstad forstjóri umhverfismála hjá GM segir þessar kröfur Kaliforníuríkis vera ótrúlega öfgafullar.