Ekki fleiri al-rafbílar frá Hyundai

Tæknistjóri hjá Hyundai í S. Kóreu segir engar fyrirætlanir uppi hjá fyrirtækinu um að fjöldaframleiða hreina rafbíla. Hann efast um að hreinir rafbílar eigi framtíðina fyrir sér. Reuters fréttastofan greinir frá þessu.

Í stað rafbíla ætlar Hyundai í framtíðinni að veðja á tengiltvinnbíla. Systurfyrirtækið Kia ætlar hins vegar að að veðja á rafbíla að einhverju leyti að minnsta kosti og er að hefja markaðssetningu á rafknúnum þéttbýlisbíl sem kemur á heimamarkað í Kóreu undir lok þessa árs.

Bæði General Motors, Toyota og Nissan leggja hafa lagt mikið undir vegna bæði hreinna rafbíla og tengiltvinnbíla. Systurfélögin Hyundai og Kia hafa hins vegar farið sér mun hægar og lagt áherslu á að þróa stöðugt sparneytnari bensín- og dísilvélar.

Hjá Hyundai hefur frá því í fyrra verið unnið að fyrsta hreina rafbílnum og þá trúlega þeim síðasta ef marka má ummæli tæknistjórans. Þetta er smábíll sem nefnist BlueOn og er hugsaður einvörðungu til sérhæfðrar notkunar hjá fyrirtækjum í S. Kóreu sem gera út flota af vinnubílum. En tvinnbílar eru greinilega það sem Hyundai telur vænlegri framtíðarklost og setti fyrir ekki svo löngu á markað í Bandaríkjunum tvinn-útgáfu stóra fólksbílsins Sonata.

En hjá Kia virðist heldur meiri trú ríkja á framtíð hreinna rafbíla en hjá Hyundai. Talsmaður Kia segir við fréttamann Reuters að senn komi á almennan markað í Kóreu og víðar í Asíu rafknúinn smábíll sem kallast TAM. Drægi bílsins er 160 kílómetrar og hámarkshraðinn er 130 km á klst. Myndin með þessari frétt er af TAM.