Ekki fleiri Saab-Cadillac?

http://www.fib.is/myndir/Cadillac-BLS-St.jpg
Cadillac BLS skutbíll.


Auto Motor & Sport greinir frá því að GM muni ekki koma fram með nýja kynslóð af Cadillac BLS sem framleiddur hefur verið í Saab-verksmiðjunum í Trollhattan í Svíþjóð. Salan á þessum „litla“ framhjóladrifna Cadillac, sem tæknilega er svipaður Saab 9-3, hefur verið langt undir væntingum og verður framleiðslunni líklegast hætt árið 2011 um leið og framleiðsla á Saab 9-3 hættir. Hjá GM binda menn vonir við að ný skutbílsútgáfa af Cadillac BLS sem væntanleg er á næsta ári  með dísilvélum frá Fiat gæti aukið áhuga Evrópumanna fyrir bílnum þannig að framleiðslan geti nokkurnveginn staðið í járnum fram til 2011.  

Stefnubreyting er nú orðin hjá Cadillac hvað varðar framhjóladrifna bíla. Framvegis á nefnilega enginn Cadillac að vera framhjóladrifinn heldur einvörðungu með drifi á afturhjólum. Aðaláherslan verður á stóra bílinn CTS sem senn á að fá nýju ofurdísilvélina frá GM og VM Motori í Ítalíu sem aðalvél. Minni „Kátiljákarnir“ STS og DTS, auk fyrrnefnds BLS, hverfa og nýjar gerðir (afturhjóladrifnar) koma í þeirra stað.   

Sportbíllinn XLR Roadster verður framleiddur til ársins 2012 og sömuleiðis jepparnir XLR og Escalade en þá munu nýjar gerðir eða kynslóðir leysa þá af hólmi. Talsverðar útlitsbreytingar verða að vísu á jeppunum á næsta ári auk þess sem þeir verða þá einnig boðnir í tvíorkuútgáfum (hybrid).

Salan á hinum sænskframleidda Cadillac BLS hefur gengið mjög illa frá því að framleiðslan hófst í Trollhattan í fyrra. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir 10 þúsund bíla árssölu. Dræmar viðtökur urðu svo til þess að endurskoðuð söluáætlun gerði ráð fyrir sjö þúsund eintaka sölu sem einnig reyndist langt umfram eftirspurn. Einungis tæplega þúsund BLS bílar seldust í fyrra í Evrópu.