Ekki meiri eldhætta af rafbílum

Upphaflegu fréttirnar reyndust rangar því eldurinn kviknaði í eldri Opel Zafira dísilbíl, árgerð 200…
Upphaflegu fréttirnar reyndust rangar því eldurinn kviknaði í eldri Opel Zafira dísilbíl, árgerð 2005

Mun minni líkur á að eldur kvikni í rafbíl samanborið við bensín- og dísilbíla

Stórbruni varð í bílastæðahúsi við Stafangerflugvöll í vikunni. Mildi þykir að enginn hafi skaðaðast í brunanum.  Áætlað er að 200 til 300 bílar hafi eyðilagst og óljóst hvort bílastæðahúsið sé viðgerðarhæft.  Í fyrstu fréttum var talið að kviknað hefði í út frá rafbíl. Mikil umræða skapaðist í kjölfarið um  eldhættu af rafbílum. Upphaflegu fréttirnar reyndust rangar því eldurinn kviknaði í eldri Opel Zafira dísilbíl, árgerð 2005. 

Fréttir af eldfimum rafbílum valda óþarfa áhyggjum

Gamli dísilbíllinn sem brann var í eigu fjölskyldu sem var að koma heim úr ferðalagi.  Bíllinn startaði ekki og það kom reykur frá vélinni.  Bíleigandinn reyndi að starta aftur og upp gaus meiri reykur og síðan eldur. Fjölskyldan forðaði sér en eldurinn breiddist hratt út og læsti sig í nærliggjandi bíla.

Talsmaður norska tryggingafélagsins Gjensidige fór mikinn í fjölmiðlum og sagði rafbíla einskonar eldsprengjur.  Það er eðlilegt að að hafa varan á sér varðandi mögulegan eld í bílageymslu eða í bíl en  áhyggjurnar eiga við um alla bíla.

Bruni í bílastæðahúsi við flugvöllinn í StavangerÞað eru mjög litlar líkur á því að eldur kvikni í rafbílarafhlöðu vegna utanaðkomandi elds eða hita.  Nái eldur að læsa sig í drifrafhlöðu rafbíls þá brenna þær hægt. Rafbílar sem brunnu inni við Stafangerflugvöll voru ekki sérstakt vandamál í slökkvistarfinu. Haft var eftir Nils-Erik Haugerud slökkviliðsstjóra Rogalands í fréttum Norska ríkisútvarpsins, NRK, að nokkrir rafbílar hafi orðið eldinum að bráð en að það hafi ekki verið sérstök áskorun fyrir slökkviliðið. ,,Eldurinn náði ekki að kveikja í rafhlöðupökkum bílanna.  Rafhlöðurnar eru varðar við botnplötuna en innréttingar, sæti ofl. varð eldinum að bráð.“  Ef það kviknar í rafbíl vegna utanaðkomandi elds þá eru rafhlöðurnar vel skermaðar af þannig að íkveikjuáhættan er lítil.

Ekki meiri eldhætta af rafbílum í bílastæðahúsum

Falsfréttir um að algengt sé að eldur kvikni í rafbílum eykur mikilvægi þess að draga fram staðreyndir um málið. Rafbílar eru ekki eldfimari en aðrir bílar.  Samkvæmt upplýsingum frá Almannatrygginga og neyðarviðbragða stofnun Noregs (DSB) þá er minni brunahætta af rafbílum samanborið við bensín- og dísilbíla í bílskúrum eða bílageymslum.  Sjá nánar hér: https://www.dsb.no/nyhetsarkiv/2017/hvor-brannfarlig-er-en-elbil/.  DSB fullyrðir að minni líkur séu á íkveikju í rafbíl heldur en í hefðbundnum brunahreyfilsbíl.  Framvinda elds í rafbíl er önnur en í bensín- og dísilknúnum bílum.  Brunaorkan er minni og eldurinn þróast hægar.  Slökkvistarfið þarf að fara fram á annan hátt og getur tekið lengri tíma.

Ef eldur kviknar í rafhlöðunni sem knýr rafbílinn þá getur sá eldur verið erfiður viðureignar. Lithium-Ion rafhlöður eru með mikla orku og brenna hægt.  Það getur þurft talsvert vatnsmagn til að slökkva endanlega í rafhlöðu. Einar Bergmann Sveinsson fagstjóri forvarnarsviðs Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, SHS, sagði m.a. eftirfarandi á Bylgjunni 18. október sl.: „Um leið og rafhlaðan verður fyrir tjóni þá er alltaf möguleiki á að hún kveiki í sér sjálf í allt að 120 klukkutíma á eftir. Við höfum séð dæmi hér heima að þegar rafhlaða hefur orðið fyrir tjóni að það kvikni í henni 86 tímum seinna. […] Þannig að menn verða að vara sig með það. Og þeir [bílarnir] kannski settir inn í hús eða annað og þá er náttúrulega hætta á að þeir kveiki í sér og kveiki í húsinu.“ Það er mikilvægt að huga vel að öllu öryggi varðandi mögulega eldhættu verði rafbíll fyrir tjóni á rafhlöðu.

Hleðsla rafbíla og raflagnir - ráðstafanir til að draga úr eldhættu 

Eftirfarandi ábendingar varðandi örugga hleðslu rafbíla eru fengnar frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS), https://www.hms.is/rafmagnsoryggi/fraedsla/hledsla-rafbila-og-raflagnir/

Hvað geta rafbílaeigendur sem óttast íkveikju gert til að lágmarka áhættuna? Mikilvægast er að tryggja örugga hleðslu. Reynslan sýnir að rafbílar brenna sjaldnar en brunahreyfilsbílar óháð því hvort þeir eru í hleðslu eða ekki.  Samt sem áður eykst eldhætta við hleðslu.  Hættan er ekki í rafbílnum heldur því hvernig hann er hlaðinn.  Hleðsla rafbíla hefur í för með sér töluverða straumnotkun sem af getur stafað hætta sé ekki rétt að málum staðið. Til að tryggja öryggi hafa verið settar sérstakar reglur um raflagnir á stöðum þar sem hleðsla rafbíla fer fram, sem og um búnað sem nota skal í þessu skyni. Þessar reglur ásamt árvekni og réttri umgengni notenda við búnaðinn tryggir öryggi við hleðslu rafbíla eins og frekast er unnt.

Hvað ber að hafa í huga til að tryggja öryggi við hleðslu rafbíla:

Fáið löggiltan rafverktaka til að yfirfara og aðlaga raflögnina áður en rafbíll er hlaðinn í fyrsta sinn.

  • Hver tengistaður má einungis hlaða einn rafbíl í einu
  • Hver tengistaður skal varinn með yfirstraumvarnarbúnaði sem einungis ver þennan tiltekna tengistað
  • Hver tengistaður skal varinn með bilunarstraumsrofa (lekastraumsrofa) sem einungis ver þennan tiltekna tengistað
  • Bilunarstraumsrofinn ætti að vera af gerð B – þó má nota gerð A sé jafnframt notuð viðbótarvörn
  • HMS mælir með að ekki séu notaðir hefðbundnir heimilistenglar til hleðslu rafbíla
  • HMS mælir með að til heimahleðslu rafbíla séu notaðar þar til gerðar hleðslustöðvar eða iðnaðartenglar
  • Stranglega er bannað að nota framlengingarsnúru, fjöltengi eða önnur „millistykki“ við hleðslu rafbíla
  • Hleðslustrengir mega ekki liggja þar sem þeir geta orðið fyrir hnjaski, t.d. yfir vegi, gangstéttar eða stíga
  • Ekki nota hleðslusnúru eða annan búnað sem hefur skemmst