Ekki skánar það!

Nú mun það komið í ljós að stóru V6 dísilvélarnar frá Volkswagen virðast líka forritaðar þannig að þær svindla á mengunarprófum. Þessar V6 vélar eru þrir lítrar að rúmtaki og eru í stóru fólksbílunum og jeppunum frá Volkswagen, Audi og Porsche í Norður-Ameríku. Þetta kom  fram í rannsókn sem bandaríska umhverfisstofnunin EPA hefur gert. Stofnunin sendi  svo bréf til innflytjanda Volkswagen, Audi og Porsche í  USA í gær, 2. nóvember. Í því er greint frá rannsókn EPA og niðurstöðum hennar og krafist skýringa.

Þessar umræddu dísilvélar eru í t.d. Volkswagen Touareg, Porsche Cayenne, Audi A6, Q5 og Q7 af árgerðum 2014-2016, alls rúmlega 10 þúsund bílum. Fyrstu viðbrögð Volkswagen eru þau að viðurkenna ekki að um sé að ræða svindl. Í stuttu svari innflutningsaðila segir að það skuli tekið fram og undirstrikað að enginn hugbúnaður hafi verið settur í bíla með 3ja lítra V6 dísilvélum sem hafi þann tilgang að fegra með ólöglegum hætti niðurstöður mengunarmælinga. „Volkswagen mun algerlega og heilshugar vinna með EPA að því að upplýsa þetta mál til fulls,“ segir í niðurlagi svarsins.

EPA er hreint ekki sama sinnis. Í bréfinu til Volkswagen segir EPA að fölsunarhugbúnaðurinn í þessum bílum vinni á sama hátt og áður hafa verið færðar sönnur á í VW Passat og Jetta bílum í Bandaríkjunum. Í bílunum með V6 dísilvélinni skynji búnaðurinn þegar mæling hefst samkvæmt mæliaðferðinni FTP-75. Nákvæmlega einni sekúndu eftir að mæling hefst skrúfar hugbúnaðurinn hreinsibúnað vélanna í botn og skrúfar svo niður í honum þegar mælingu lýkur. Mengunarmælingin sýni þannig öll mengunargildi vel innan marka.  Hinsvegar þegar hugbúnaðurinn er gerður óvirkur sé NOx mengunin níu sinnum umfram leyft hámark.