Ekki þarf að virkja sérstaklega til að rafmagnsvæða samgöngur

Á næstu tíu árum þarf hvorki að virkja sérstaklega á Íslandi til að rafmagnsvæða samgöngur né þurfi að styrkja flutningskerfi Landsnets sérstaklega. Þetta kom fram í máli Bjarna Bjarnasonar, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, í Silfrinu á RÚV sl. sunnudag.

Fram kom í þættinum að Orkuveitan spáir því að rafbílar verði árið 2030 orðnir 100 þúsund talsins. Bjarni Bjarnason sagði ennfremur í þættinum að um 7,5 - 8% af öllu rafmagni sem hægt sé að vinna árlega í landinu sé óselt. Það dugi til að knýja allan einkaflota landsins og gott betur en það.

Bjarni sagði í þættinum að 7,5% myndu duga á 600 þúsund einkabíla en í dag væru þeir um 270 þúsund.

,,Við erum að horfa á tímaramma líka sem er þannig að árið 2030, eftir tíu ár, að þá verðum við komin með um 100 þúsund bíla, ef spá okkar gengur eftir. Það er bara 1,5 prósent nú þegar erum við með 7,5 prósent laus og óseld,“ sagði Bjarni í Silfrinu.

Fram kom ennfremur í máli Bjarna að orkufrekur iðnaður taki 80 prósent af raforkuframleiðslu landsins. Allt annað; heimilin, léttur iðnaður, fiskiðjan, ylrækt og landbúnaður taki tuttugu prósent. Stóriðjan og gagnaver hafi dregið úr raforkunotkun og dregið hafi úr almennri notkun líka, til dæmis vegna fækkunar ferðamanna en einnig vegna þess að raftæki eru sparneytnari.