Eldgosið í Eyjafjallajökli TopGear að kenna?

Þau stórtíðindi eru í ýmsum netmiðlum austanhafs og vestan höfð eftir íslenska fjölmiðlarýninum Annalisa Kneejerk, að eldgosið í Eyjafjallajökli sé sjónvarpsþættinum TopGear og hinum loðhærða sjónvarpskynni „Richard Clarkson“ að kenna.  Með þessari „frétt“ fylgja myndir af rauðum Toyota Hilux bíl frá Arctic Trucks sem James May ók að eldstöðinni á Fimmvörðuhálsi og renndi framhjólunum upp á nýlega runnið hraun úr eldstöðinni og mikill hvellur varð út af hjá fólki sem töldu að óbætanlegur skaði hefði með þessu verið unninn á náttúru Íslands. James May er einn þriggja þula í TopGear þáttum BBC sjónvarpsins breska, hinir eru Richard Hammond og Jeremy Clarkson.

Fréttavefur FÍB kannast ekki við hinn íslenska fjölmiðlarýni Önnulísu Kneejerk og hyggst heldur ekki gera tilraun til að þýða eftirnafn hennar. Hún er þó greinilega mjög víða lesin því að mjög margir netmiðlar segja frá þessari kenningu hennar í dag. Að öllu gríni slepptu er líklegt að fjölmiðarýnirinn og fréttin sjálf sé runnin undan rifjum þremenninganna í TopGear sjálfum, enda er hún ansi skondin og mjög í ætt við það sem „alvarlega“ þenkjandi kristnir fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa verið að flagga undanfarið, samanber þetta. En fréttin frá „fjölmiðlarýninum“ er svona í lauslegri þýðingu:

- Samkvæmt innlendum fjölmiðlum sást til hins loðhærða sjónvarpsmanns akandi á breyttum Hilux upp á brún eldfjallsins Eyjafjallajökuls í síðustu viku.

Þótt upphaflega hafi verið látið að því liggja að hann væri bara að mynda atriði fyrir hinn vinsæla bílaþátt þá komu fljótt upp raddir um það að tilgangur hans með förinni hafi verið miklu skuggalegri.

Nú þegar hefur það verið vísindalega sannað að TopGear ber ábyrgð á nálega öllu hinu illa í heimi nútímans. Því getur eldgosið þar sem ofboðslegir kraftar leysast úr læðingi aðeins viku eftir heimsókn Richard Clarksons, varla talist tilviljun ein,- segir Annalisa Kneejerk.-