Eldsneytið hækkar og hækkar á heimsmarkaði

Heimsmarkaðsverð á olíu hélt áfram að hækka í morgun eftir að hafa náð methæðum í gær – um 60 dollurum tunnan. OPEC, samtök olíuríkja, íhuga að auka hráolíuframleiðluna til að slá á verðskriðið. Vafasamt er að það muni gagnast vegna þess að olíuhreinsunarstöðvar hafa ekki undan að framleiða olíuafurðir eins og bensín og dísilolíu úr hráolíunni eins og nú háttar og hvað þá ef olíuríkin taka að dæla meiri olíu upp úr jörðu.
Nú eru sumarleyfi að ganga í garð í Evrópu og Bandaríkjunum. Þá eykst venjulega eftirspurn eftir bensíni sérstaklega og dísilolíu og verðið hækkar. Ennfremur er verkfall yfirvofandi á olíuborpöllum hins norska Statoil. Ef af því verður dregst norsk olíuframleiðsla saman um þriðjung í einu vetfangi. Allt þetta er nokkurskonar ávísun á enn frekari hækkanir.
Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB segir að hækkanir á eldsneytisverði hér á landi síðustu daga séu ekki meiri en reikna mátti með út frá hækkandi heimsmarkaðsverði. Þvert á móti virðist olíufélögin hafa lækkað álagningu sína.
Með hækkandi heimsmarkaðsverði mætti hins vegar ríkisvaldið athuga sinn gang með að lækka sínar álögur á eldsneytið. Ofan á verð eldsneytisins eins og það kostar komið til landsins leggst bensíngjald og frá næstu mánaðamótum olíugjald ofan á dísilolíuna. Síðan leggst ofan á allt saman 24,5% virðisaukaskattur. Þar sem skatturinn er prósentuskattur hagnast ríkissjóður því meir sem innkaupsverðið er hærra. Það getur því varla talist annað en sanngjarnt að ríkið lækki bensín- og olíugjald á móti hækkandi innkaupsverði eldsneytisins.