Eldsneytis- og bílakaup dragast saman

Velta í þeim útgjaldaliðum sem tengjast rekstri bifreiða drógust verulega saman milli ára í ágúst, en dregið hefur úr bílainnflutningi á árinu. Þetta kemur fram í  nýrri úttekt Hagsjár, sem hagfræðideild Landsbankans stendur að.

Þriðji stærsti útgjaldaliður Íslendinga í ágúst var kaup á eldsneyti og útgjöld tengd viðhaldi og viðgerðum bifreiða. Ef litið er til breytinga frá því í ágúst í fyrra hefur velta dregist hlutfallslega mest saman í þeim lið sem tengist bifreiðum, þ.e.a.s. kaupum á eldsneyti og viðgerðarþjónustu bifreiða, eða alls um 13% að raunvirði.

Eldsneytiskaup drógust saman um 3% en viðgerðir og viðhald bifreiða um 24%. Minna viðhald bifreiðar er ef til vill vísbending um að bílaflotinn sé að yngjast.

Fram kemur í úttektinni að til samanburðar höfðu þessir liðir aukist um samtals 7% í ágúst í fyrra frá árinu þar á undan, þar af eldsneytiskaup um 13%. Aukin umhverfismeðvitund og hagkvæmni í rekstri hefur aukið eftirspurn eftir rafbílum og eru minnkandi eldsneytiskaup staðfesting á því.

Velta í bílasölu samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum segir svipaða sögu, alls dróst hún saman um 22% að raunvirði milli ára á tímabilinu maí til og með júní en veltan hefur minnkað samfleytt frá vormánuðum 2018.