Eldsneytistankur í Galloper

Heiðar Sveinsson framkvæmdastjóri BL hefur sent fréttavef FÍB eftirfarandi athugasemd vegna fréttar hér á undan um verð sem félagsmaður FÍB fékk hjá BL á eldsneytisgeymi í Galloper jeppa:

"Í frétt sem er birt hjá ykkur á FÍB vefnum er vísað í samskipti Ágústs Ú. Sigurðssonar sem hann átti við BL ehf vegna verðs á elsdneytistank í Hyundai Galloper.  BL ehf hefur í vinnslu þessara breytinga (á vörugjöldum og VSK..innsk blm.) lagt höfuð áherslu á að þær kæmu allar til neytenda í síðasta lagi við áramót.

Þegar staðfest var orðið að virðisaukaskattur færi úr 25,5 í 24% um áramót lækkaði BL ehf verð á bílum strax í kjölfarið og var því lokið fyrir jól.

Síðan þegar það var orðið ljóst að vörugjöld færu af varahlutum lækkaði BL allan lager í landinu sem hafði borið vörugjöld. Það var tekin ákörðun um að þessi lækkun kæmi neytendum strax til góða óháð því hvort BL ehf hefði keypt inn vöruna með vörugjöldum. Þessari vinnu lauk líka fyrir jól.

Varan sem Ágúst spurði eftir hefur aldrei verið til hjá BL ehf, þegar þannig kemur upp er erlenda verð vörunnar reiknað út í reikniforriti sem er óháð lagernum okkar.  Sá misbrestur var á að það láðist að breyta forsendum í reikniforriti og því er varan með nánast sama verði á fyrrgreindum tímum.

Rétt verð á vörunni í dag er 86.000 kr.

BL er í mun að skila þessum kjarabótum til viðskiptavina og harma þessi mistök í upplýsingagjöf.

Kær kveðja,

Heiðar Sveinsson framkvæmdastjóri."