Eldsneytisverðstríð á Suðurlandi

Atlantsolía reið á vaðið og lækkaði eldsneytisverð aðfaranótt laugardagsins á Selfossi. Fram að þessu hefur eldsneytisverð hjá Atlantsolíu verið lægst á Sprengisandi í Reykjavík, Kaplakrika í Hafnarfirði og á Akureyri. Annars staðar hefur verið afsláttarverð með bensínlykli fyrirtækisins. Bensínlítrinn kostar nú 294,7 krónur. Orkan greip til sama ráð um helgina á Selfossi og kostar bensínlítrinn það sama og hjá Atlantsolíu. Segja má að verðstríð sé hafið í eldsneytissölu á Suðurlandi.

Rakel Björg Guðmundsdóttir, markaðsstjóri Atlantsolíu, sagði í samtali við Morgunblaðið að fyrirtækið hefði riðið á vaðið 2018 þegar við lækkuðum verð með bensínsprengju í Kaplakrika, fyrst allra olíufélaga. Það var svar við innkomu Costco á eldsneytismarkaðinn og svo lækkuðum við verðið líka á Sprengisandi ári seinna og síðan gerðum við það sama á Akureyrarmarkaðnum líka,“ segir hún.

„Við höfum alltaf verið fyrst allra olíufélaganna til að lækka verðið og taka þessa samkeppni, og svo hafa samkeppnisaðilar okkar verið misfljótir að svara því.“ Rakel segir að forstöðumönnum Atlantsolíu hafi fundist tími til kominn að svara kalli Suðurlands um lægra eldsneytisverð.

„Það var kominn tími til að svara því kalli neytenda, en Suðurland er mjög stórt markaðssvæði og bæði hefur íbúum fjölgað mikið undanfarið á Suðurlandi og svo er mjög mikil sumarhúsabyggð þarna líka.“

Mikið var að gera að gera á bensínstöð Atlantsolíu alla helgina. Viðskiptavinir Atlantsolíu fá áfram afslátt af eldsneyti með dælulykli á öllum öðrum stöðvum Atlantsolíu, segir Rakel, en í Kaplakrika, á Sprengisandi, Baldursnesi og Selfossi munu allir fá sama lága eldsneytisverðið, án afsláttar.

Samkvæmt Gasvaktinni í morgun stóð eldsneytisverð á sölustöðum á Selfossi þannig. Lítrinn af bensíni var 294,6 krónur á Orkunni, Atlantsolíu 294,7 krónur, ÓB 321,7 krónur, Olís 326,8 krónur og á N1 326,9 krónur.

Dísillítrinn kostaði 303 krónur á Orkunni, Atlantsolíu 303,2 krónur, 323 krónur á ÓB, 329,1 krónur á Olís og 329,2 krónur á N1.