Eldsnögg rafhlöðuskipti

Tesla kynnti rétt fyrir helgina nýja tækni sem á að verða tiltæk á öllum Tesla-hleðslustöðvum. Hún felur það í sér að allir ökumenn Tesla rafbíla munu geta ekið inn á hleðslustöð og fengið skipt út tómum rafgeymum fyrir fulla á einni mínútu.

Fyrirkomulagið á hleðslustöðvum Tesla verður þannig að menn geta valið milli þess að tengja sinn Tesla rafbíl við hraðhleðslutengil og fullhlaða geymana á þeim tíma sem það tekur, en borga ekki krónu fyrir orkuna, eða fá geymunum skipt út á skemmri tíma en það tekur að fylla á eldsneytistankinn á venjulegum bíl og greiða þá fyrir orkuna auk skiptigjalds.

Þetta var kynnt með miklu húllumhæi á blaðamannafundi í Kaliforníu. Kynningin var mjög lík þeim sem Steve Jobs hjá Apple hélt þegar hann kynnti nýjan Apple varning. Elon Musk eigandi og forstjóri Tesla stóð á sviði eins og rokkstjarna og kynnti nýju skiptitæknina fyrir fullum sal áheyrenda sem fögnuðu mjög. Hún fór þannig fram að Tesla S bíl var ekið inn á sviðið en um leið sást vídeómynd á risaskjá af Audi A8 sem renndi að bensíndælu. Á sviðinu var síðan skipt út rafgeymasettinu í Tesla S bílnum á sviðinu en dælt bensíni á Audi bílinn á skjánum. Og auðvitað var ekki að sökum að spyrja: Teslan varð á undan að aka út af sviðinu en Audi bíllinn frá bensíndælunni.

Þótt auðvelt sé að segja frá svona kynningu í hálfkæringi þá minnir hún mann óneitanlega á það að það er verið að vinna að því hörðum höndum bæði hjá Tesla og annarsstaðar að leysa þau vandamál sem rafbílinn hefur alla tíð dragnast með í farteskinu og hafa gert hann ósamkeppnishæfan við bíla með hefðbundnum brunahreyflum. Það er alls ekkert vonlaust að það takist – vonandi sem fyrst.

Því miður er það ennþá svo, að það er ekkert einfalt mál heldur þvert á móti mjög erfitt að geyma mikla orku í rafmagnsformi um borð í bílum. Mun erfiðara en að geyma hana bundna í olíu eða bensíni. Auðvitað þýða eldsnögg rafhlöðuskipti það að rafbíllinn verður miklu nýtilegri til langferða en áður. Gallinn er bara sá að Tesla rafhleðslustöðvar eru hreint ekki á hverju strái eins og bensínstöðvar eru.