-En áfram heldur hann þó!

35 ár eru liðin frá því fjöldaframleiðsla hófst á hinum ferkantaða G-jeppa frá Mercedes Benz. Nokkrum sinnum hin síðari ár hefur staðið til að hætta framleiðslunni á þessum mjög svo gamaldags útlítandi jeppa, en jafnharðan hafa aðdáendur hans risið upp á afturlappirnar og mótmælt hástöfum. En hann selst stöðugt og því skyldu menn slátra góðri mjólkurkú? Þessa stundina eru heldur engar hugmyndir uppi um slíkt og nýjasta árgerðin rennur út þótt ekki kosti þessi bíll nú neina smápeninga.

http://fib.is/myndir/G-Benz1.jpg
http://fib.is/myndir/G-Benz2.jpg
http://fib.is/myndir/G-Benz3.jpg

En gamli góði G-jeppinn hefur marga kosti: Hann er mjög traustbyggður og sterkur, öflugur í torfærum, rúmgóður og lipur í akstri þótt ekki sé hann nein smásmíði. Ennfremur fylgir honum andblær fortíðar, eins og gamla Land Rover Defender og það þykir dálítið eftirsóknarvert á markaði sem er yfirfullur af lúxusjeppum sem flestir líta nokkurnveginn eins út og eru vart til stórræðanna í torfærum. G-jeppinn er í grunninn gamaldags jeppi, byggður á stálgrind en vélin og drifbúnaður hins vegar af nýjustu gerð.

Nýjasta gerð jeppans nefnist G 500. Hægt er að velja milli nokkurra vélargerða. Sú fyrsta er nýjasta fjögurra lítra V8 bensínvélin sem einnig fyrirfinnst í AMG ofurbílunum frá Mercedes. Hún er með tveimur túrbínum, 422 hö. og leysir af hólmi eldri, stærri, afl- og togminni en eyðslufrekari V8 vél. Aðrir vélarkostir eru svo  245 ha./600 Nm. Dísilvél og V12, tólf strokka AMG sem er 630 hö. og togar þúsund Newtonmetra.