Endurbættur Grand Vitara

The image “http://www.fib.is/myndir/Suzukilogo.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Ný og mikið breytt kynslóð hins vinsæla Suzuki Grand Vitara er komin á markað í heimalandinu Japan. Til Evrópu er bíllinn væntanlegur í lok þessa árs. Nýja Vitaran er ekki einungis mikið útlitsbreytt heldur hafa verulegar breytingar verið gerðar á undirvagninum, m.a. er ekki lengur heill afturöxull heldur fjaðra afturhjólin óháð hvort öðru. Þetta er ávísun á betri aksturseiginleika í venjulegum akstri.
Nýja Grand Vitaran, þriðja kynslóðin, er nokkru stærri en sú eldri. Lengdin á fimm dyra útgáfunni er 17 sm meiri eða samtals 4,39 m að meðtöldu varadekkinu á afturhurðinni. Lengd milli hjólamiðja er sömuleiðis 16 sm meiri en áður eða 2,64 m. Rými í aftursæti er umtalsvert betra en áður vegna lengdaraukningarinnar auk þess sem aftursætið er 3 sm breiðara en áður var. En Grand Vitara hefur ekki stækkað á alla kanta því að sá nýi er  4 sm lægri en fyrri gerðin.
Eitt hefur ekki breyst í nýju gerðinni - sem sé það að enn er Grand Vitara byggður á grind og enn er bíllinn með millikassa og þar með hátt og lágt drif. Ekki er lengur aukagírstöng til að setja í lága drifið, heldur er það gert með því að snúa hnappi. Gamla tvískipta drifið milli fram- og afturgjóla er hins vegar úr sögunni og þess í stað komið sítengt fjórhjóladrif. Í torfærum getur ökumaður svo læst mismunadrifinu milli fram- og afturhjóla.
Sex loftpúðar eru í Grand Vitara og ESP stöðugleikakerfi verður fáanlegt, en hversu umfangsmikill staðalbúnaðurinn verður í bílnum þegar hann kemur hingað er ekki fullljóst enn.
Bensínvélarnar verða líklegast svipaðar og eru í Grand Vitara  nú, eða 2,0 eða 2,7 l. Óljóst er hins vegar á þessari stundu hverskonar dísilvélar verða í boði. Evrópufrumsýning verður á hinum nýja Suzuki Vitara á bílasýningunni í Frankfurt í september nk.
The image “http://www.fib.is/myndir/GrandVitarany.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Hinn nýi Grand Vitara. Kominn á heimamarkað - væntanlegur á Evrópumarkað í árslok.